Wednesday, December 30, 2009
Áramót
er nýja' og gamla árið mætast tvö.
Áramótaóskin mín er sú
að aftur komi tvöþúsund og sjö.
Tuesday, November 24, 2009
Ferskeytlur...
Ferskeytlu ég ber á blað
bara þegar nenni,
því mér finnst svo erfitt að
yrkja samkvæmt henni.
Oft hef leikið grátt mitt geð
og gráðugt tuggið neglur.
Fullt ég á í fangi með
flóknar bragarreglur.
Mér í vegi myndi fátt
mega fá að standa
ef ég hefði æðri mátt
einhvers hagorðs fjanda.
Raun er önnur - gerist gramt
geðið vegna þessa.
Eðli mínu er ekki tamt
orð í brag að hvessa.
Eftir hætti er pínlegt puð
pælingar að virkja.
Eflaust væri stanslaust stuð
stuðlalaust að yrkja;
semja alls kyns atómdrög,
orðum saman lötra,
yrkja fram í lengstu lög,
laus við stuðlafjötra.
En...
...þó svo braglaus geti góð
gerst, er annað fegra:
Að ég stuðli öll mín ljóð.
Enda skemmtilegra.
Tuesday, November 03, 2009
Játning
Um atburð nú hefi ég of lengi þagað
og of lengi hefir mig samviskan nagað,
en nú verður lyginni létt.
Sem óþekkur bjáni ég hefi mér hagað
og heilmikinn skaðann ég get ekki lagað.
Því færi ég heiminum frétt:
Það gerðist eitt sumarið, langt fyrir löngu, -
ég lúinn kom heim eftir erfiða göngu
um fannhvítan fjallanna sal.
Ég kunni' ekki að greina hið rétta frá röngu
er róa mig langaði taugarnar svöngu ...
...og köku úr krúsinni stal!
Borið hefur á kvörtunum yfir því að síðustu línuna vanti í ljóðið. Það tilkynnist því hér að hana er að finna hvítletraða á milli þrípunkts og upphrópunarmerkis.
Wednesday, September 16, 2009
Öxlin hans afa
Núna, þegar öxlinni hefur verið kippt í liðinn, segir afi hana sennilega betri en áður.
Oft, er stígum ævidans
eitthvað markvert gerist
eins og þegar öxlin hans
afa úr liðnum snerist.
Minning um það lifir ljós
(ljótt jú annað væri).
Úti á palli, uppi í Kjós
átu holu-læri.
Þau drukku, sól uns settist þar
og supu margir hvelju;
því guðdómlega vínið var
víst úr spænskri belju.
Upp á dal var haldið hratt
og hér skal fest á prenti
að oní skurðinn afi datt -
og á hvolfi lenti.
„Svona“, sagði hann, „fer sem fer,
féll nú góður drengur.
Mér er ljóst að öxlin er
ekki í liðnum lengur.“
Nú var fyrir skildi skarð
en skrítið þótti mikið
að bjöguð öxlin bara varð
betri fyrir vikið.
Tuesday, September 01, 2009
Á bragaþingi í Efri-Vík 2009
Í kvöld, kæru gestir, þér kvæðamenn mestir,
kveikjum vér ljóðanna eld
og vonum að pestir og vanheilsubrestir
verði oss fjarri í kveld.
Amann vér kyrjum er andann vér styrkjum -
á amstrinu vinnum vér bug.
Blýantinn virkjum - af alúð vér yrkjum
um allt, sem oss dettur í hug.
Um heima og geima lát stuðlana streyma
og um stórbrotna kvæðanna borg.
Vér látum oss dreyma - hér leyfist að gleyma
lífsins angist og sorg.
Sem tíðkaðist forðum, vér tendrum og skorðum
vort tungumál ennþá að vild.
Og sjá, hér að borðum fólk situr, sem orðum
kann saman að raða af snilld.
Í kvöld, kæru gestir, þér kvæðamenn mestir
sigla kvæðin hinn ljóðræna sjó.
Nú held ég að flestir, sem hér eru sestir,
hafi af mér fengið nóg.
Wednesday, August 19, 2009
Í minningu Derricks
Sakamálin leysti' af list
löggumann, sem þekkti Krist.
Góðan höfum gæðing misst.
Guter Mann gestorben ist.Elsku Guð, hvað get ég sagt,
gráan slæ ég sorgartakt.
Spyrjum þann, sem var á vakt:
Wer hat Derrick umgebracht?
Wednesday, July 29, 2009
Takk fyrir mig!
Ég hef séð Ísland gera jafntefli við heimsmeistara í fótbolta á Laugardalsvelli, ég hef séð handboltalandsliðið tryggja sér sæti á stórmótum með marki á lokasekúndunum, ég hef séð skólann minn hampa mörgum sigrum í milliskólakeppnum og ég hef séð ömmu mína skafa happaþrennu til vinnings. Engin af þessum upplifunum jafnast þó á við þá, sem ég átti um sl. helgi.
Fyrir hefur komið að ég hef heyrt til fólks, sem lýst hefur þeirri skoðun sinni að golf sé tilgangslaust og jafnvel leiðinleg íþrótt - bæði að leika og jafnvel enn frekar á að horfa. Þeir sem horfðu á lokaholur Íslandsmótsins um sl. helgi á RÚV (eða mættu jafnvel á völlinn) ættu að hafa sannfærst um hið gagnstæða.
Þessi flippað klikkaða skemmtun sem boðið var upp á um helgina var einkum og sér í lagi einum manni að þakka - Ólafi Birni Loftssyni. Maðurinn stóð uppi sem Íslandsmeistari eftir svo ótrúlegar lokaholur að jafnvel handritshöfundi klisjukenndustu Hollywoodkvikmyndar sögunnar hefði varla dottið annað eins til hugar sem söguefni. En þetta var engin saga - þetta var raunverulegt. Ólafur lék fjórar seinustu holur vallarins (sem eru kallaðar „Final four“ og frægar sem erfiðustu lokaholur landsins) allar á fugli og tryggði sér þar með umspil við Stefán Má Stefánsson (eða vonda kallinn, eins og vistfólk Fossheima á Selfossi kallaði hann). Innáhögg Ólafs á 18. flötina heppnaðist reyndar ekki fullkomlega. Langt og geypilega erfitt pútt átti hann eftir fyrir fuglinum sem mundi tryggja honum umspil.
Svo púttað'ann boltanum beint móti golunni
og boltinn fór rúllandi' í áttina' að holunni
og fólkið af mögnuðum fögnuði hoppaði
er fannhvítur boltinn í holuna skoppaði.Ákaft þá fjölmenni' í kór heyrðist hvíslandi:
„Christ! Þessi drengur er bestur á Íslandi!“
Stefán klúðraði stutta púttinu sínu og umspil varð raunin. Nú voru velflestir áhorfendur komnir á band Ólafs, því geislandi sigurviljinn hreif alla viðstadda. Ólafur lék golf sem Íslendingar hafa hingað til aðeins fengið að sjá í sjónvarpsútsendingum frá fjarlægum slóðum. Enginn varð heldur svikinn af spilamennskunni í umspilinu. Eftir magnaðan viðsnúning sem innihélt m.a. fimm fugla í röð á erfiðustu holunum hampaði Ólafur Íslandsmeistaratitlinum við fögnuð viðstaddra - fögnuð sem Ólafur átti sannarlega skilið eftir að hafa upp á sitt einsdæmi boðið upp á e-ja skemmtilegustu íþróttaupplifun fyrr og síðar.
Thursday, July 16, 2009
Sorgardagur
Alþingi samþykkti tillögu ríkisstjórnar um að Ísland sæki um aðild að ESB. Í þessari tilvonandi umsókn mun felast viljayfirlýsing - yfirlýsing um að Ísland vilji ganga í ESB. Þessi yfirlýsing er ekki gefin út í nafni þjóðarinnar heldur í nafni Jóhönnu Sigurðardóttur og restinni af Alþingishyskinu. Nú sit ég og hlusta á Jóhönnu Sig. lýsa því yfir að þessi kosning hafi verið sú ,,gleðilegasta" sem hún hafi tekið þátt í, þ.e. sú gleðilegasta síðustu u.þ.b. 100 árin. Henni finnst gleðilegt að Ísland hafi í dag stigið stórt skref í átt til þess aumingjaskaps að láta tímabundna efnahagserfiðleika einnar kynslóðar hlekkja þá sem erfa munu landið um aldur og eilífð þungum hlekkjum ESB.
Skárra mér þætti að skrimta í íslenskum tötrum
en skjögra um eilífð í evrópskum bandalagsfjötrum.
Tuesday, June 09, 2009
Skáldið, sem nennt'ekk'að yrkja
Nú get ég ekki orða bundist.
Ó, mér hefur lengi fundist
erfitt hug minn visna að virkja -
verða sífellt meir að yrkja.
Mér það vekur vondan leiða
að vaða stuðladjúpið breiða.
Grafa í mosagróna þanka -
grípa í tóman orðabanka.
Sí og æ með orð að bruðla,
en sú mæða að finna stuðla,
afla ríms og réttra orða
úr ræfilslegum orðaforða.
Ég alla daga veð í villu
á verulega rangri hillu,
því fátt er leiðinlegra en það
að láta stuðlað rím á blað.
Friday, June 05, 2009
Steindor.is
Saturday, May 30, 2009
Á 50 lítrum...
Svo segir ennfremur, orðrétt:
Bíll A - fyrir hækkun: 667 km á 50 lítrum
Bíll A - eftir hækkun: 571 km á 50 lítrum
Bíll B - fyrir hækkun: 385 km á 50 lítrum
Bíll B - eftir hækkun: 329 km á 50 lítrum
Bíll A kemst 96 km styttra á 50 lítrum eftir hækkun.
Bíll B kemst 56 km styttra á 50 lítrum eftir hækkun.
Þetta þykja mér stórfréttir! Bölvuð vinstristjórnin hefur greinilega ekki aðeins hækkað verðið á hvern bensínlítra, heldur hefur hún ennfremur séð til þess að hver bensínlítri skili bílnum styttra áleiðis en áður! Sennilega með því að þynna það með vatni.
Hvaða áhrif ætli verðhækkunin á áfengið hafi eiginlega? Þarf framvegis tvær kippur af bjór í stað einnar til að verða sæmilega kenndur?
Wednesday, May 20, 2009
Úr hörðustu átt
Í fyrstu mátti ætla að um meinlegt mismæli hefði verið að ræða, en því var ekki að heilsa. Sigmundur Ernir ítrekaði amböguna um hvers þjóðin ætti skilið og þegar upp var staðið hafði hann spurt fjórum sinnum með sama orðalagi.Í sjálfu sér sé ég ekkert athugavert við að DV.is bendi á þetta. Það væri enda varla í frásögur færandi, nema fyrir þá sök að vinstra megin við þessa grein er risastór fyrirsögn, sem segir: ,,Jackson frestar fjórum tónleikum". Á sama hátt og við tölum um fernar buxur (en ekki fjórar) tölum við um ferna tónleika, en ekki fjóra. E.t.v. hefði mátt ætla að þarna væri um meinlega misritun að ræða hjá DV.is, en því er ekki að skipta, enda ítrekar höfundur amböguna í greininni sjálfri.
Meðfylgjandi er mynd af forsíðu DV.is.
Friday, May 15, 2009
Ömmi mælir
Hlustaðu, þjóð, því ég færi þér fögnuð,
svo fljótt munu lýsast upp blikur.
Nú leysi ég vandann og lausnin er mögnuð!
Sú lausn - er að skattleggja sykur.
Tuesday, May 12, 2009
Skipt um Jóhönnu
Monday, May 11, 2009
Ég fylgist með ykkur...
Saturday, May 09, 2009
Leiðandi spurningar
Þetta bragð kunna þeir sem framkvæma skoðanakannanir (og vita hvaða niðurstöðu þeir vilja sjá) líka. Þannig sýna skoðanakannanir, sem ESB-sinnar þreytast seint á að vitna í, að meirihluti þjóðarinnar vilji ,,fara í aðildarviðræður". En í spurningunni ,,vilt þú að Ísland fari í aðildarviðræður við ESB?" felst blekking. Þarna er reynt að hylma yfir þá staðreynd að ,,aðildarviðræður" eru eftirleikur aðildarumsóknar. Hlutlaus spurning væri: ,,Vilt þú að Ísland sæki um aðild að ESB?" Ég er ekki viss um að jafnmargir myndu svara þeirri spurningu játandi. Svo illa vill hins vegar til að framkvæmendur ESB-kannana eru ESB-sinnar, eins og sannast á orðalagi spurninganna.
Margir, einkum fjölmiðla- og stjórnmálamenn auk að sjálfsögðu þorra moggabloggara, halda því fram að ekkert neikvætt geti mögulega falist í því ,,að fara í aðildarviðræður" og að þeir sem séu á móti því séu bæði þverir og vitlausir. En hvað eru aðildarviðræður annað en afleiðing aðildarumsóknar? Og hvað er umsókn um aðild að ESB annað en yfirlýsing um vilja til að ganga í ESB? Ef fyrirtæki auglýsti laus störf og segði alla sem sæktu um fá starfsviðtal, væru þá allir sem ekki vildu sækja um þverir og vitlausir? Fælist ekki í umsókninni yfirlýsing um að vilja fá starfið?
Af sömu ástæðu og ég vil ekki lýsa yfir vilja til að ganga í ESB vil ég ekki sækja um aðild - og þar af leiðandi ekki heldur fara í aðildarviðræður. Þetta er eins og það að ef ég væri vinstrigrænn umhverfissinni myndi ég líklega ekki vilja sækja um starf í álveri (þ.e. fara í starfsviðræður við álver).
Hættum svo að nota þetta asnalega orð, aðildarviðræður, sem Samfylkingin með hjálp fjölmiðla í landinu hefur tekist að gera að ráðandi hugtaki yfir það sem með réttu heitir aðildarumsókn.
Tuesday, May 05, 2009
Af raunum laganemans
endurtekin saga.
Nú fæst ég mest við meðalhóf
og meginreglur laga.
Glósur veð ég hátt í háls
og heftin gegnum malla.
Enda, skv. eðli máls,
ekki tækt að falla.
Mér er hvorki ljúft né létt
að lesa - og það í skyndi -
eina bók um eignarrétt
og aðra um veðréttindi.
Verst af öllu þó er það,
sem þyrfti helst að skána,
að þurfa að kunna utan að
alla stjórnarskrána.
Já, námið, það er bölvað baks
og basl, sem hjartað stingur.
Ó, ef ég gæti aðeins strax
orðið lögfræðingur.
Sunday, May 03, 2009
Sammála ósammála.is
Meðal krafna sem osammala.is gerir er þessi hér:
Það er ennfremur skoðun okkar að ef til þess kæmi að sótt yrði um inngöngu í Evrópusambandið sé það eðlileg krafa að aukinn meirihluta kjósenda þurfi til þess að hún nái fram að ganga. Ekki sé ásættanlegt að slíkt hitamál yrði samþykkt einungis með naumum meirihluta.Þessu er ég afskaplega sammála. Mér finnst ekki ásættanlegt að naumur meirihluti þjóðarinnar geti neytt nauman minnihluta inn í Evrópusambandið. Og ekki nóg með það að naumur minnihluti þeirrar þjóðar sem núna byggir landið yrði þannig neyddur þangað inn, heldur yrðu ókomnar kynslóðir neyddar þangað líka. Við megum ekki gleyma því að íslenska þjóðin tekur sífelldum breytingum. Hvaða rétt hefur helmingur þjóðarinnar sem byggir landið á einum tímapunkti til að taka ákvörðun, sem hlekkir ekki bara hinn helminginn heldur líka allar ókomnar kynslóðir höndum og fótum þungum hlekkjum Evrópusambandsins?
Ég óttast að ef sú þjóð sem núna byggir Ísland lætur tímabundna efnahagserfiðleika hrinda sér út í það að semja sig inn í Evrópusambandið - afsala til Brüssel því fullveldi sem forfeður okkar börðust fyrir um þarsíðustu aldamót - verði hún fordæmd fyrir sjálfselsku og eigingarni, hugleysi og aumingjaskap - jafnvel landráð - af komandi kynslóðum. Það er skammgóður vermir að pissa í skóinn sinn - ef þá leið á að fara finnst mér annað ótækt en að um það sé sammála þorri þjóðarinnar en ekki helmingur.
Á Frónsins feigðartákni
nú fjarskamikið ber.
Mér býður við því bákni
sem bandalagið er.
Tuesday, April 28, 2009
Öndverðir meiðar
Margir hafa sterkar skoðanir á þessu máli og ég held að fæstir falli í þriðja flokkinn. Jafnvel má ætla að fyrir mörgum sé þetta nógu stórt mál til þess að stefnur flokkanna hvað það varðar hafi skipt sköpum um hvar atkvæði þeirra lenti í nýafstöðnum kosningum.
Fyrir kosningarnar má segja að aðeins hafi tveir flokkar tekið einarða afstöðu með eða á móti aðildarviðræðum við ESB. Það voru einmitt þeir flokkar sem mynduðu 80-daga minnihlutastjórnina, sem þar skipuðu sér á fullkomlega öndverða meiða. Þrátt fyrir að hafa þverandsnúnar skoðanir á þessu mest áberandi kosningamáli sameinast þeir nú um að mynda saman ríkisstjórn og hafa, að því er virðist, þegar leyst úr þessum ágreiningi þannig að Vinstrigrænir gefi Samfylkingunni lausan taum í Evrópumálum en fái í staðinn stóreflt umhverfisráðuneyti til eigin afnota.
Nú spyr ég: Er of langsótt að leggja saman tvo og tvo og komast að þeirri niðurstöðu að þessi atburðarás sé öll sömul fyrir fram ákveðin? Getur verið að flokkarnir hafi tekið sameiginlega ákvörðun snemma í kosningabaráttunni um að skipa sér öfgafullt hvor til sinnar áttarinnar í afstöðunni með og gegn ESB-aðild í von um að tryggja sér atkvæði allra sem hafa sterkar skoðanir á málinu, hvort sem þeir eru andvígir aðild eða fylgjandi?
Bjarni Harðarson, fullveldissinni og bóksali á Selfossi, ritaði grein í Morgunblaðið skömmu fyrir kosningar þar sem hann upplýsti að hann greiddi VG sitt atkvæði vegna Evrópuafstöðu þeirra. Eflaust hafa margir tekið þann sama pól í hæðina. Hvað fær þetta fólk nú fyrir það atkvæði sem það greiddi gegn ESB-aðild? Aukin umsvif umhverfisráðuneytisins? Skyldi það taka því sem ásættanlegri sárabót fyrir uppgjöf VG í Evrópumálum og enga baráttu gegn aðildarviðræðum?
Monday, April 27, 2009
Af nýju þingi
Á úldinn minnir þingið þara,
það er ljótur fengur.
Fjárhagskreppan fær að vara
fjórum árum lengur.
--
Frónið hefur kreppu kynnst
af kröppum mætti.
Samt er þarft að þess sé minnst
með þessum hætti:
Á Alþinginu fátt mér finnst
um fína drætti.
Sunday, April 26, 2009
Nokkrar ástandsvísur
Ef að sleppa á Ísland hratt
út úr kreppumynstri,
er þá snjallt að stefni statt
og stöðugt allt til vinstri??
---
Ógnarvandi eitlar hér,
ullu klandri sóðar.
Nú til fjandans farin er
framtíð lands og þjóðar.
---
Í tilefni hugmynda um þau mótmæli að éta kjörseðilinn sinn:
Á þingmenn herjar hatrömm pest,
af hefð og gömlum vana.
Ef til vill er bara best
að borða kjörseðlana.
Friday, April 17, 2009
Ég var að hugsa um að fara úr buxum
Ég var að huxumÞarna er galdratækinu rími beitt á afbragðssnjallan og -frumlegan hátt af sprelligosunum í Baggalúti. Þessa ljóðlínu má heyra undir blálokin á laginu Kósíkvöld í kvöld, sem er uppáhaldslagið mitt þessa dagana. Raunar verður maður að leggja vel við hlustir til að greina snillina, en lagið er byrjað að fjara út (hljóðstyrkur minnkar smám saman) þegar hún á sér stað. Þar að auki er ljóðlínan ekki hluti af texta lagsins, eins og hann er prentaður í bæklingi hljómskífunnar sem hýsir það (hér má hlusta á lagið, lengst til hægri).
að far' úr buxum.
Reyndar er víða í laginu beitt afspyrnusmellnu og -skemmtilegu rími og frumlegar leiðir farnar í þeim efnum. Nokkur dæmi:
Skelfing er ég leiður á því að húka hér.
- Ég hugsa að þú þurfir einhvern að strjúka þér.
Algert óhóf, spennulosun og spilling blind.
Sparistellið, franskar vöfflur – og hryllingsmynd.
Mér áskotnuðust vindlar, við skulum púa þá.
- Ég væri til í pottinn, nennirðu að skrúfa frá?
Langaði bara að miðla snillinni - vonandi hefur einhver gaman af þessu.
Wednesday, April 15, 2009
Gerði sig að fífli
Að mestu fífli gerði hann sig þegar hann beindi þeim tilmælum til fólks að fara í húsið og tala við þessa krakka - en það þýddi hins vegar ekkert fyrir fullorðið fólk að segja þeim að þetta væri ekkert nýtt, hipparnir í gamla daga hefðu líka gert svona lagað. Svo segir Árni Pétur orðrétt: ,,þú veist, það á bara að skjóta fólk sem segir svoleiðis - það er alveg satt!". Þetta má heyra frá tíma 36:40 og áfram. Þarna hefur Árni Pétur annaðhvort gleymt því í smástund að hann var gestur í útvarpsþætti og eyru stórs hluta þjóðarinnar heyrðu til hans, eða þá að hann er bara ekki betur gefinn en þetta.
En þetta er ekki eina tilvikið í þessu viðtali þar sem Árni gerði sig að fífli. Honum er mikið í mun víðs vegar í viðtalinu að koma að þeirri skoðun sinni að eignarréttur sé nú bara eitthvað kjaftæði, sem hafi ekki gefið okkur neitt. Þegar honum er bent á að það þyrfti nú að hafa samráð við eiganda hússins bregst hann við með orðunum: ,,Samráð við eiganda, samráð við eiganda, þú veist þessi eignarréttur - ég æli bara á þetta. Það er alveg satt! Hvað er þessi eignarréttur, hvað hefur hann gefið okkur þessi eignarréttur?" (37:45 o.áfr.). Þarna lýsir Árni yfir yfirþyrmandi vanþekkingu og gerir sér sennilega ekki ljósan nokkurn skapaðan hlut um þýðingu, inntak eða mikilvægi eignarréttar.
Þessi maður er fenginn í Ríkisútvarpið vikulega til að fara yfir fréttir líðandi stundar. Hann mætti þá sennilega kalla álitsgjafa, en slíkir hafa sprottið upp sem aldrei fyrr á undanförnum mánuðum. Sem skattgreiðandi mótmæli ég veru þessa vanhæfa manns í Ríkisútvarpinu.
-----
Ein lítil braghenda um Michael Jackson að lokum:
Michael Jackson má sinn fífil muna fegri.
Hann var miklu myndarlegri
meðan hann var ennþá negri.
Dropi af kaffi
Ég sit oft lengi og læri -
af lestri er hugur sveittur.
Ó, aðeins að ég væri
ekki svona þreyttur.
Ég tel mig eiga til að,
tíðum, undir pressu,
híma - og hefur bilað
heilinn útaf þessu.
Ég víxla oft ui og vaffi
í værum hvíldarlotum.
Kannski dropi af kaffi
kæmi að góðum notum.
Tuesday, April 14, 2009
Hundurinn Bo
Ég velti fyrir mér hvernig því yrði tekið, ef ég fengi mér hund og nefndi hann SDJ.
Friday, April 10, 2009
Á föstudaginn langa
Ljóðið birtist í þriðju ljóðabók Davíðs, Kveðjum, sem kom út árið 1924. Sagan af tilurð þess er á þá leið að Davíð dvaldi á gistiheimili í Noregi yfir páska. Meðal annarra gesta voru mæðgur - ung kona og fötluð dóttir hennar, lömuð og bækluð. Á föstudaginn langa langaði fatlaða stúlkubarnið að sækja messu í nálægri kirkju, en móðir þess veigraði sér við að fara. Það varð úr að Davíð fór með stúlkuna til messunnar, þar sem hann varð fyrir einstaklegum áhrifinum - og ljóðið varð til. Davíð taldi víst að nærvera sálar fötluðu telpunnar hafi magnað þau kristilegu áhrif, sem messan hafði á hann.
Eitthvað á þessa leið lýsti Davíð tilurð ljóðsins í bréfi til Ásgeirs Ásgeirssonar, forseta og guðfræðings, sem hafði spust fyrir um efnið.
Á föstudaginn langa e. Davíð Stefánsson
Ég kveiki á kertum mínum
við krossins helga tré.
Í öllum sálmum sínum
hinn seki beygir kné.
Ég villtist oft af vegi.
Ég vakti oft og bað.
Nú hallar helgum degi
á Hausaskeljastað.Í gegnum móðu og mistur
ég mikil undur sé.
Ég sé þig koma, Kristur,
með krossins þunga tré.
Af enni daggir drjúpa,
og dýrð úr augum skín.
Á klettinn vil ég krjúpa
og kyssa sporin þín.Þín braut er þyrnum þakin,
hver þyrnir falskur koss.
Ég sé þig negldan nakinn
sem níðing upp á kross.
Ég sé þig hæddan hanga
á Hausaskeljastað. -
Þann lausnardaginn langa
var líf þitt fullkomnað.Ég bíð, uns birtir yfir
og bjarminn roðar tind.
Hvert barn, hvert ljóð, sem lifir,
skal lúta krossins mynd.
Hann var og verður kysstur.
Hann vermir kalda sál.
Þitt líf og kvalir, Kristur,
er krossins þögla mál.Þú ert hinn góði gestur
og guð á meðal vor, -
og sá er bróðir bestur,
sem blessar öll þín spor
og hvorki silfri safnar
né sverð í höndum ber,
en öllu illu hafnar
og aðeins fylgir þér.Þú einn vilt alla styðja
og öllum sýna tryggð.
Þú einn vilt alla biðja
og öllum kenna dyggð.
Þú einn vilt alla hvíla
og öllum veita lið.
Þú einn vilt öllum skýla
og öllum gefa grið.Að kofa og konungshöllum
þú kemur einn á ferð.
Þú grætur yfir öllum
og allra syndir berð.
Þú veist er veikir kalla
á vin að leiða sig.
Þú sérð og elskar alla,
þó allir svíki þig.Ég fell að fótum þínum
og faðma lífsins tré.
Með innri augum mínum
ég undur mikil sé.
Þú stýrir vorsins veldi
og verndar hverja rós.
Frá þínum ástareldi
fá allir heimar ljós.
Saturday, April 04, 2009
Málefnalegi Moggabloggarinn
Innan nokkurra mínútna hafði bloggarinn eytt færslunni minni og sagt mig kjána á launum frá Valhöll við að dreifa skítabombum um bloggheima, þar sem sannleikurinn um Sjálfstæðisflokkinn kæmi fram. Ef ég reyni að setja færsluna mína aftur inn fæ ég athugasemd um að ekki sé leyfilegt að skrifa athugasemd á þetta blogg úr þessari tölvu.
Athugasemdin sem ég gerði við bloggfærslu þessa manns leit svona út (og dæmi nú hver fyrir sig um réttmæti og ástæður eyðingar hennar):
Þetta er ómálefnaleg bloggfærsla, kæri bókmenntafræðingur.
Þú talar um heiladauð kvikindi og ætlast líklega til að lesandinn skilji það sem þá, sem fylgja Sjálfstæðisflokknum í blindni. Með gagnályktun frá þínum skrifum er hægt að lesa að þú teljir engan viti borinn og þenkjandi mann munu kjósa Sjálfstæðisflokkinn, vegna þess að hann beitir öllum ráðum til að hindra að frumvarp til stjórnskipunarlaga nái fram að ganga.
En nú skulum við setja hlutina í samhengi og færa okkur yfir á málefnalega hlið, sem þú ert e.t.v. óvanur. Hvað munu fyrirhugaðar stjórnarskrárbreytingar hafa í för með sér? Telur þú þig geta svarað því?
Ef svo er þá þykistu vita eitthvað sem þú veist ekki - því enginn veit hvað þær hafa í för með sér. M.ö.o. mun skapast réttaróvissa. Núgildandi lög hafa stoð í núgildandi stjórnarskrá og hafa mótast og þróast með rót í henni. Dómstólar hafa í áratuganna rás mótað efni hennar og annarra laga með hliðsjón af henni. Að stjórnarskrá sé gömul er ekki galli heldur kostur - því eldri og rótgrónari stjórnarskrá, þeim mun meira réttaröryggi. Sú réttaróvissa sem skapaðist með tilkomu nýrrar stjórnarskrár er ekki það sem við þurfum á að halda í þessu efnahagslega fárviðri sem ríður yfir.
Ástæða þessa stjórnskipunarlagafrumvarps er efnahagskreppa - hrun fjármálakerfisins - bankakreppa. EKKI stjórnskipunarkreppa. Þetta ber að hafa hugfast. Það var ekki stjórnskipunin sem klikkaði, heldur efnahagsmálin. Þetta er ekki sami hluturinn, eins og margir virðast halda. Ef þú heldur því fram að efnahagshrunið sé gallaðri stjórnarskrá að kenna máttu gjarnan benda mér á hvaða grein stjórnarskrárinnar það er, sem olli. Að ana út í setningu nýrrar stjórnarskrár á þessum grundvelli er hégómi, því miður.
Sjálfur er ég ekki Sjálfstæðismaður og hef aldrei kosið flokkinn. Með framferði sínu síðustu daga hefur hann aukið líkur þess til muna að nú verði svo í fyrsta skiptið. Þ.a.l. flokkar þú mig líklega sem "heiladautt kvikindi" er það ekki?
Mig grunar að væru málin, sem nú eru í gangi, með öfugum formerkjum, þannig að Sjálfstæðisflokkurinn reyndi að koma í gegn frumvarpinu en aðrir berðust gegn því, að þá mætti greina annan tón hjá þér. Þess vegna ert þú ómálefnalegur, a.m.k. í þessu tilfelli og kannski bara að eðlisfari.
Hver er það, þegar upp er staðið, sem er heiladauður?
Tuesday, March 31, 2009
Í besta falli hálfur
Til Höllu:
Þú þekkir betur mig og mín
mál en ég geri sjálfur.
Vegna þessa varla án þín
ég væri nema hálfur.
Tuesday, March 17, 2009
Til eru hús -
Til eru hús, sem hlutu þennan dóm:
að hafna á köldu landi og standa tóm.
Eins eru menn sem munu fá að þjást,
því máttarstólpinn - vinnan þeirra - brást.
Og valdhafar, sem vitið hafa misst,
og verðtryggð lán, sem enginn getur fryst.
Og hlutabréf, sem ekkert fyrir fæst -
og framavon, sem aldrei getur ræst.
Til eru lönd, sem liggja í heimsins flór,
og lítil þjóð, sem aldrei verður stór.
Monday, March 16, 2009
Stjórnlagaþing?
Eiríkur var sá eini fjórmenninganna sem mælti með stjórnlagaþingi. Gunnar Helgi var nokkuð hlutlaus, en þeir Hafsteinn Þór og Skúli Magg lýstu andstöðu við það. Skúli gekk jafnvel svo langt að lýsa yfir vægast sagt alvarlegum áhyggjum af þessari hugmynd.
Framsöguræða Gunnars Helga var að mínum dómi ekki upp á marga fiska - mjög litríkt myndskreytt glærusýning sem hann notaði til stuðnings vakti ekki hrifningu mína. Hafsteinn Þór var öllu skárri og benti helst á að þeir tímar sem nú eru uppi væru e.t.v. ekki sem best fallnir til afdrifaríkra stjórnarskrárbreytinga. Einnig benti hann réttilega á þá fásinnu að kalla eftir nýrri stjórnarskrá vegna þess að hin núverandi sé svo gömul. Það er ekki galli stjórnarskrár að hún sé gömul - það er kostur! Með aldrinum festir stjórnarskráin rætur og þeim mun rótgrónari sem stjórnarskrá er, því meira réttaröryggi. Af nýrri stjórnarskrá leiðir óhjákvæmilega réttaróvissa, enda engin fordæmi fyrir beitingu hennar. Á slíkri réttaróvissu er ekki þörf um þessar mundir.
Á eftir Hafsteini sté Skúli í pontu og hélt þrumuræðu. Sagðist hann meðal annars mótfallinn hugmyndum um stjórnlagaþing vegna tilefnis þeirra. Tilefnið er bankakreppa - efnahagshrun - en ekki stjórnlagakreppa. Reyndin sé sú að stjórnskipunin svínvirki (eins og hafi berlega komið í ljós síðustu vikur og mánuði) en sé ekki handónýt eins og sumir vilja vera að láta. Að ana út í e-ð í líkingu við stjórnlagaþing undir þessum formerkjum sé hégómi. Skúli þuldi fleiri rök gegn stjórnlagaþingshugmyndinni.
Næstur steig á stokk Eiríkur Tómasson og sagði Skúla hafa sagt að stjórnarskrárbreytingar væru hégómi. Það þótti mér kjánalegt af Eiríki, enda alls ekki það sem Skúli sagði í raun. Skúli leiðrétti þetta sjálfur að lokinni ræðu Eiríks. Eiríkur sagðist telja stjórnlagaþing rétta leið til betrumbóta gallaðrar stjórnarskrár.
Mikið hefur verið rætt um hvernig fulltrúar hugsanlegs stjórnlagaþings skyldu valdir. Meðal annars hefur þeirri hugmynd verið fleygt fram (t.d. af ágætum samnemanda mínum) að velja af handahófi u.þ.b. 50 einstaklinga úr þjóðskrá til samningar nýrrar stjórnarskrár. Þetta er líklega það fáránlegasta sem ég hef heyrt. Ég bendi fylgjendum þessarar hugdettu á að sá, sem vill fara þessa leið, er í sama mund að segja að honum sé nákvæmlega sama hver semur stjórnarskrá landsins. Og þar af leiðandi væntanlega líka að honum sé nákvæmlega sama hvað stendur í henni, eða hvað?
Sunday, March 08, 2009
Jórunni í 2. sæti
Inn á Alþingi finnst mér Jórunn eiga gott erindi. Krafan um endurnýjun mannskapar á Alþingi er hávær og ekki að ástæðulausu. Er enda fullt af nýjum andlitum í framboði og ekki laust við að maður óttist það að Alþingishúsið fyllist af nýgræðingum, sem ekki kunna til verks á sviði stjórnmála og munu reika um húsið í reiðu- og eirðarleysi, grunlausir um hvað til bragðs skuli taka.
Jórunn hefur, að mínu mati, akkúrat hæfilega reynslu af stjórnmálum. Næga reynslu til að vita um hvað málin snúast og til að kunna til verks á þessu sviði, án þess þó að hinn ferski eldmóður og kraftur sé farinn að þverra. Þaðan af síður verður henni kennt um hvernig fyrir Íslandi er komið. Stefnumál Jórunnar má kynna sér á jorunn.is.
Ég hvet alla flokksbundna Sjálfstæðismenn í Reykjavík til að setja tölustafinn 2 framan við nafn Jórunnar í prófkjörinu næstu helgi, 13.-14. mars.
Monday, March 02, 2009
Ósammála Sigurði Líndal
Þess má geta að Róbert hefur auk embættisprófs í lögfræði frá HÍ meistaragráðu á sviði ríkisréttar með ágætiseinkunn frá Oxford, þaðan sem hann hlaut verðlaun fyrir afburðanámsárangur.
Í fréttum RÚV sl. föstudag gerðist sá fátíði atburður aftur, að einhver taldi sig bæran til að vera ósammála Sigurði Líndal um lögfræðilegt álitaefni. Þarna var á ferð Jóhanna Sigurðardóttir, sem sagðist ósammála þeirri túlkun Sigurðar að það sé stjórnarskrárbrot að setja Norðmann í íslenskt embætti. Í 2. mgr. 20. gr. stjórnarskrárinnar segir að engan megi skipa embættismann nema hann hafi íslenskan ríkisborgararétt. Sigurður telur í þessu felast að á sama hátt megi engan setja embættismann, en slíkt er eðlileg túlkun þegar litið er til markmiðs ákvæðisins (að Íslendingar, en ekki útlendingar taki afdrifaríkar ákvarðanir fyrir Ísland). Jóhanna sagði reyndar að girt hefði verið fyrir þetta, með seðlabankalögunum sem gengu í gildi í lok síðustu viku. Hún virðist sem sagt einnig ósammála því að stjórnarskráin sé æðri almennum lögum frá Alþingi. Þegar fréttamaður spurði hana hvernig hennar lög gætu verið æðri stjórnarskrá svaraði hún: ,,Það sem er grundvallaratriði er að við erum hér að skipa toppmann í þessa stöðu."
Þess má geta að Jóhanna hefur verslunarpróf frá Verslunarskóla Íslands.
Hér má sjá skemmtilega kenningu Mána Atlasonar um það hví Jóhanna er óbundin stjórnarskrá.
Tuesday, February 24, 2009
Davíð í Kastljósinu
Davíð: Það er sagt að Seðlabankinn sé rúinn trausti. Það er óskaplega auðvelt að segja þetta, ég gæti sagt að þú værir rúinn trausti og þyrfti ekkert að segja meira um það. Þú mundir örugglega segja af þér og hlaupa út er það ekki? Mundirðu gera það?
Sigmar: Ég get vísað í dáldið hatramma umræðu gagnvart Seðlabankanum og traustinu gagnvart honum, þú gætir kannski ekki gert það að sama skapi gagnvart mér.
Davíð: Jújú, þú hefur oft verið gagnrýndur mjög, hvernig þú hefur komið fram hér í þáttum.
Og þessi, eftir að Davíð hafði þulið hversu ítrekað Seðlabankinn varaði við því sem var í uppsiglingu:
Sigmar: En má ekki líka alveg stilla þessu þannig upp að sú staða sem upp var komin var vegna þess að þið brugðust í aðdragandanum?---
Davíð: Hvenær?
Sigmar: Þið afnemið t.d. bindiskylduna eða minnkið hana stórlega, Seðlabankinn. Það gerði bönkunum kleift að vaxa á meiri hraða.
Davíð: Hvenær? Um hvaða bindiskyldulækkun ertu að tala?
Sigmar: Ég er að tala um þá bindiskyldulækkun sem var hérna fyrir nokkrum árum.
Davíð: 2003 ?
Sigmar: Já.
Davíð: 2003 ?
Sigmar: Já.
Davíð: Ég kom í bankann 2005.
Seðlabankinn rúinn trausti?
Í viðtalinu ræddu þeir félagar nokkuð um traust og þá aðallega rúið traust Seðlabankans. Þetta meinta rúna traust er jú aðalástæða þess að dýrlingurinn Jóhanna Sigurðardóttir vill losna við Davíð (með örþrifaráðinu lögum). En er Seðlabankinn rúinn trausti? Davíð benti í viðtalinu á þrennt:
1) Kreditkort Íslendinga, hvar sem þeir voru í heiminum, héldu áfram að verka þrátt fyrir að bankarnir hryndu. Það var vegna þess að Seðlabankinn ábyrgðist allar greiðslur allra Íslendinga og því var treyst.
2) Þegar átti að koma greiðslum til landsins eftir hrun þorði enginn að gera það í gegnum neitt bankakerfið, en allir treystu Seðlabankanum. Seðlabankinn hélt greiðslukerfinu við útlönd opnu.
3) Þegar greiðslur stöðvuðust til nýju bankanna höfðu seðlabankastjórarnir íslensku (Davíð, Ingimundur og Eiríkur) samband við erlenda seðlabanka og fengu þá til að þrýsta á aðra erlenda banka að skila greiðslum til Íslendinga. Þetta var gert - ergo: Seðlabanki Íslands naut trausts.
Við þetta má bæta því sem kom fram í fréttum í gær um Ingimund Friðriksson. Hann sagði á dögunum af sér embætti bankastjóra við Seðlabanka Íslands, enda ofbuðu honum þær aðfarir sem Jóhanna Sigurðardóttir gerði að honum og hans starfsheiðri í frægu bréfi þar sem hún fór fram á að seðlabankastjórar segðu af sér vegna þess gífurlega vantrausts sem í þeirra garð ríkti. (Jóhanna þakkaði honum í kjölfarið opinberlega samstarfsfýsi og skilningsríki, þrátt fyrir að hafa fengið bréf frá honum þar sem raunverulegar ástæður uppsagnar komu fram.) Nú, þegar Ingimundur er á lausu, hefur norski seðlabankinn samband við hann og býður honum stöðu við bankann vegna sérfræðiþekkingar hans á rekstri seðlabanka. Svo mikið var þá vantraustið. Ingimundur starfaði við Seðlabanka Íslands í 34 ár.
Monday, February 23, 2009
Það birtir til
Einn '35-brandari að lokum í tilefni dagsins:
S j ó m a n n a s a g a:
Gamli skipstjórinn var allra mesti harðstjóri og drabbari og því illa liðinn af öllum skipverjum. Eitt sinn er skip hans lá í höfn í hitabeltinu, kom hann fullur um borð eitt kvöldið og datt í sjóinn. Þar var krökkt af hákörlum. Jens háseti sá ófarir skipstjórans af tilviljun og gat loksins draslað honum heilum á hófi um borð.
„Hvernig á ég nú að þakka þér þetta, Jens minn góður“, mælti skipstjóri hrærður og leit skelkaður ofan í kolsvartan sjóinn.
„Blessaður, þú mátt bara ekki segja eitt orð um þetta við hina piltana, því að þá berja þeir mig til óbóta“, svaraði Jens dauðhræddur.
Tuesday, February 03, 2009
Obama og Jóbama
Hér er annar brandari, töluvert fyndnari og eldri (úr Nýjum kvöldvökum 1935):
- Þakka þér fyrir afmælisgjöfina, frændi.
- Ekkert að þakka, það var svo lítið.
- Það fannst mér líka, en mamma sagði að ég skyldi samt þakka þér fyrir.
Saturday, January 24, 2009
Skúrkar og hetjur
Skúrkar:
- Ofbeldis- og eyðileggingarskríllinn sem grýtir (auk þess að hreyta mannasaur og hlandi(!) í) lögreglu með skelfilegum afleiðingum og sýnir Alþingi ömurlega óvirðingu með eggja- og grjótkasti, rúðubrotum, málningarslettum og fleiru.
- Fólkið sem gerði aðsúg að forsætisráðherra á einkar bjánalegan hátt. Ég vona að það sjái eftir því, einkum í ljósi fréttanna af heilsufari hans. Þarna á meðal er Hallgrímur Helgason, sem ennfremur kemst á skúrkalistann fyrir að gera lítið úr þessu í Kastljósinu í gærkvöldi.
- Helgi Seljan fyrir að ganga ekki hart að HH vegna þátttöku sinnar í aðsúgnum að Geir og spyrja hann reyndar ekki rassgat út í það.
- Hörður Torfason fyrir algjörlega smekklaus, siðlaus og særandi ummæli í viðtali við mbl.is um veikindi Geirs Haarde.
- Guðrún Tryggvadóttir fyrir þessi ummæli: „Ég er ekki farin að finna til með honum ennþá. Ég tel hann heppinn að hafa veikst því nú mun fólk ekki þjarma að honum,“ við AP fréttastofuna.
Hetjur:
- Einstaklingarnir, sem stilltu sér upp framan við lögreglu, henni til varnar leggjandi sjálfa sig í hættu, þegar ofbeldisskríllinn réðist að henni með grjót- og saurkasti við Stjórnarráðið á dögunum.
- Geir Haarde fyrir ótrúlega stillingu og æðruleysi þrátt fyrir að hafa nýfrétt af alvarlegum veikindum sínum. Ennfremur fyrir að segja þjóðinni frá þeim í magnþrunginni ræðu.
- Lögreglan, fyrir vel unnin störf við ómögulegar aðstæður.
---
Á morgun, sunnudag, hyggst ég mæta til mótmæla, aldrei þessu vant. Þá á nefnilega að mótmæla hluta af mótmælendum sjálfum, þ.e. þeim sem hafa farið fram með ofbeldi og eyðileggingu. Slík mótmæli styð ég, sbr. þetta:
Við Þingið logar ólgueldur,
emjar skríll af bjálfum.
Mótmæla við mættum heldur
mótmælendum sjálfum.
---
Endum þetta á lítilli skrítlu frá 1935:
A.: Það var ekki fyrr en eftir 12 ár að ég uppgötvaði það, að ég var ekki skáld.
B.: Og þá hættuð þér að yrkja?
A.: Nei, því þá var ég orðinn frægur.
Sunday, January 18, 2009
Skrítlur frá 1935
Hann hafði beðið sér stúlku en hún hafði neitað honum.
– O-jæja, sagði hann harmi lostinn, ég býst ekki framar við að ég giftist.
Hrósið, sem í þessu fólst, fór ekki fram hjá stúlkunni og hún sagði brosandi: – Ó, heimskinginn minn, heldurðu að engin stúlka vilji þig þó að ég hryggbryti þig?
– Auðvitað, sagði hann og brosti um leið, – hver heldurðu að vilji mig úr því að þú vildir mig ekki?
---
Fyrirsögn í erlendu blaði: Konan, sem barin var á dögunum af eiginmanni sínum er nú sögð miklu betri.
---
Hann: Ég er svo glaður að ég gæti kysst allt og alla.
Hún: Ertu vitlaus? Nú erum við trúlfuð, og því verður þú að leggja niður öll æskupör þín.
---
Nemandi: Fyrirgefið, herra prófessor, hvað er það, sem þér hafið skrifað hérna á spássíuna á ritgerð minni? Ég get ekki lesið það.
Prófessorinn: Ég skrifaði, að þér ættuð að skrifa læsilegar.
---
Frúin við lækninn: Ég er hrædd um, að maðurinn minn sé ekki með öllum mjalla. Stundum tala ég við hann næstum stanzlaust í heilan klukkutíma, en það er eins og hann heyri ekki eitt einasta orð.
Læknirinn: Þetta eru engin veikindi. Þetta er aðeins hæfileiki hjá manninum yðar.
Skrítlurnar eru teknar orðrétt upp úr Nýjum kvöldvökum, árgangi 1935, útgefnum af Þorsteini M. Jónssyni á Akureyri.
Thursday, January 08, 2009
Pókerboðun
Selfossbókasafni á
sit og les mín fræði.
Ef ég pældi' í póker, þá
ég prófi varla næði.
Núna á ég erfitt mjög,
er það ljóst og sannað.
Að fara bryti farbannslög,
svo ferlega' er það bannað.
Ósköp væri kappa kært
að koma í pókerhófið.
En nóg hef ekki ennþá lært
undir næsta prófið.
Skemmtan vekur skruddan síst -
skelfing þessi bók er.
Öllu betra væri víst
að vera með í póker.
Iðar þráin um minn skrokk -
er að (næstum) deyja.
Heljarvítis fokking fokk!
"Fold!"* ég verð að segja.
Því það er víst enn of snemmt.
Ó, sú djöfuls mæða.
Vona að ykkur vel sé skemmt,
af vinum fé að græða.
Senn mér verður um og ó,
óðar lestur herði.
Ykkur hjá í huga þó
ég hugsa' í kvöld ég verði.
*Hér er gerð krafa um kunnáttu fólks á enskum pókerhugtökum.
Saturday, January 03, 2009
Áramótaskaupið
Að heljarbáli vonin varð,
að vonbrigðum varð óskin blíð.
Árið, sem nú gekk í garð
gefi okkur betri tíð
með blóm í haga og birtu og yl
svo batni mein og græði sár.
Víst er ljúft að vera til -
velkomið sé hið nýja ár.
Árið 2008 endaði á sama hátt og öll önnur ár í seinni tíð - með Áramótaskaupinu. Að venju safnaðist allt of stór fjölskyldan saman í allt of lítinn sófa og glápti saman á Skaupið í allt of litlu sjónvarpstæki, sem var allt of langt í burtu og heyrðist allt of lítið í. Allir náðu þó boðskapnum að lokum. Mér heyrist á flestum að þeim hafi þótt Skaupið gott. Þessu er ég ósammála - mér fannst það lélegt. Vissulega hafði það sína ljósu punkta, eins og t.d. Jón Gnarr og biskupssoninn Góa, sem stóð sig afbragðsvel (einkum í gervi Dags B). En í heildina þótti mér þetta lélegt, enda var fallið í þá gryfju sem ég hafði búist við - a.m.k. 9 af hverjum 10 bröndurum fjölluðu um kreppuna. Að mínu viti hefði átt að sleppa kreppubröndurum með öllu og koma fólki þannig skemmtilega á óvart. En nei, það var víst ekki hægt, höldum bara áfram að mjólka og tyggja þetta kreppufár ofan í landsmenn þangað til þeir æla. Í staðinn var ákveðið að sleppa alveg hlutum eins og vörubílafárinu og Sturlu Jónssyni (sem er náttúrulega sér brandari út af fyrir sig). Ég hafði hlakkað mikið til að sjá hann tekinn fyrir. Svo fannst mér Davíð Oddsson afskaplega illa túlkaður og leikinn af kolvitlausum manni. Og textarnir í lögunum voru illa ortir og slæmir.
Bis bald. Adios.