Saturday, May 09, 2009

Leiðandi spurningar

Ég hef tvisvar starfað sem símasölumaður og í bæði skiptin setið námskeið, þar sem kennt var hvernig best er að plata fórnarlamb símasölu til að kaupa það sem selja skal. Lykilatriði er að spyrja leiðandi spurninga. T.d. er, að lokinni vörukynningu, óvænlegt að segja: ,,hvernig líst þér á þetta?". Frekar skaltu segja: ,,Líst þér ekki bara vel á þetta?"

Þetta bragð kunna þeir sem framkvæma skoðanakannanir (og vita hvaða niðurstöðu þeir vilja sjá) líka. Þannig sýna skoðanakannanir, sem ESB-sinnar þreytast seint á að vitna í, að meirihluti þjóðarinnar vilji
,,fara í aðildarviðræður". En í spurningunni ,,vilt þú að Ísland fari í aðildarviðræður við ESB?" felst blekking. Þarna er reynt að hylma yfir þá staðreynd að ,,aðildarviðræður" eru eftirleikur aðildarumsóknar. Hlutlaus spurning væri: ,,Vilt þú að Ísland sæki um aðild að ESB?" Ég er ekki viss um að jafnmargir myndu svara þeirri spurningu játandi. Svo illa vill hins vegar til að framkvæmendur ESB-kannana eru ESB-sinnar, eins og sannast á orðalagi spurninganna.

Margir, einkum fjölmiðla- og stjórnmálamenn auk að sjálfsögðu þorra moggabloggara, halda því fram að ekkert neikvætt geti mögulega falist í því ,,að fara í aðildarviðræður" og að þeir sem séu á móti því séu bæði þverir og vitlausir. En hvað eru aðildarviðræður annað en afleiðing aðildarumsóknar? Og hvað er umsókn um aðild að ESB annað en
yfirlýsing um vilja til að ganga í ESB? Ef fyrirtæki auglýsti laus störf og segði alla sem sæktu um fá starfsviðtal, væru þá allir sem ekki vildu sækja um þverir og vitlausir? Fælist ekki í umsókninni yfirlýsing um að vilja fá starfið?

Af sömu ástæðu og ég vil ekki lýsa yfir vilja til að ganga í ESB vil ég ekki sækja um aðild - og þar af leiðandi ekki heldur fara í aðildarviðræður. Þetta er eins og það að ef ég væri vinstrigrænn umhverfissinni myndi ég líklega ekki vilja sækja um starf í álveri (þ.e. fara í starfsviðræður við álver).

Hættum svo að nota þetta asnalega orð, aðildarviðræður, sem Samfylkingin með hjálp fjölmiðla í landinu hefur tekist að gera að ráðandi hugtaki yfir það sem með réttu heitir aðildarumsókn.

No comments:

Post a Comment

Athugasemdir