Wednesday, September 16, 2009

Öxlin hans afa

Afi Árnason hringdi í mig á dögunum og sagðist vera með yrkisefni. Fyrir skemmstu varð hann nefnilega fyrir því óláni, að snúa sína vinstri öxl úr lið. Þetta gerðist á göngutúr uppi í Kjós, þegar hann hugðist ganga yfir illa brúaðan skurð. Fyrr um kvöldið höfðu amma og afi snætt holu-grillað læri ásamt vinahjónum sínum, Erlu og Himma, eins og þeirra er siður og drukkið með því vín úr spænskri ,,belju". Himmi var honum samferða í göngutúrnum, og vitni að útúrsnúningi axlarinnar.
Núna, þegar öxlinni hefur verið kippt í liðinn, segir afi hana sennilega betri en áður.

Oft, er stígum ævidans
eitthvað markvert gerist
eins og þegar öxlin hans
afa úr liðnum snerist.

Minning um það lifir ljós
(ljótt jú annað væri).
Úti á palli, uppi í Kjós
átu holu-læri.

Þau drukku, sól uns settist þar
og supu margir hvelju;
því guðdómlega vínið var
víst úr spænskri belju.

Upp á dal var haldið hratt
og hér skal fest á prenti
að oní skurðinn afi datt -
og á hvolfi lenti.

„Svona“, sagði hann, „fer sem fer,
féll nú góður drengur.
Mér er ljóst að öxlin er
ekki í liðnum lengur.“

Nú var fyrir skildi skarð
en skrítið þótti mikið
að bjöguð öxlin bara varð
betri fyrir vikið.

2 comments:

  1. Snilldarlega ort, eins og oft áður!

    ReplyDelete
  2. Nei, gaman að sjá þig hér Kibbi minn og bestu þakkir!

    ReplyDelete

Athugasemdir