Saturday, January 24, 2009

Skúrkar og hetjur

Síðustu dagar hafa verið tíðindamiklir. Nokkrar hetjur hafa komið fram í látunum, en fleiri skúrkar. Hér fer smáúttekt, langt í frá tæmandi (a.m.k. hvað skúrkana varðar):

Skúrkar:
  1. Ofbeldis- og eyðileggingarskríllinn sem grýtir (auk þess að hreyta mannasaur og hlandi(!) í) lögreglu með skelfilegum afleiðingum og sýnir Alþingi ömurlega óvirðingu með eggja- og grjótkasti, rúðubrotum, málningarslettum og fleiru.
  2. Fólkið sem gerði aðsúg að forsætisráðherra á einkar bjánalegan hátt. Ég vona að það sjái eftir því, einkum í ljósi fréttanna af heilsufari hans. Þarna á meðal er Hallgrímur Helgason, sem ennfremur kemst á skúrkalistann fyrir að gera lítið úr þessu í Kastljósinu í gærkvöldi.
  3. Helgi Seljan fyrir að ganga ekki hart að HH vegna þátttöku sinnar í aðsúgnum að Geir og spyrja hann reyndar ekki rassgat út í það.
  4. Hörður Torfason fyrir algjörlega smekklaus, siðlaus og særandi ummæli í viðtali við mbl.is um veikindi Geirs Haarde.
  5. Guðrún Tryggvadóttir fyrir þessi ummæli: „Ég er ekki farin að finna til með honum ennþá. Ég tel hann heppinn að hafa veikst því nú mun fólk ekki þjarma að honum,“ við AP fréttastofuna.

Hetjur:
  1. Einstaklingarnir, sem stilltu sér upp framan við lögreglu, henni til varnar leggjandi sjálfa sig í hættu, þegar ofbeldisskríllinn réðist að henni með grjót- og saurkasti við Stjórnarráðið á dögunum.
  2. Geir Haarde fyrir ótrúlega stillingu og æðruleysi þrátt fyrir að hafa nýfrétt af alvarlegum veikindum sínum. Ennfremur fyrir að segja þjóðinni frá þeim í magnþrunginni ræðu.
  3. Lögreglan, fyrir vel unnin störf við ómögulegar aðstæður.
Og e.t.v. fleiri.

---
Á morgun, sunnudag, hyggst ég mæta til mótmæla, aldrei þessu vant. Þá á nefnilega að mótmæla hluta af mótmælendum sjálfum, þ.e. þeim sem hafa farið fram með ofbeldi og eyðileggingu. Slík mótmæli styð ég, sbr. þetta:

Við Þingið logar ólgueldur,
emjar skríll af bjálfum.
Mótmæla við mættum heldur
mótmælendum sjálfum.

---
Endum þetta á lítilli skrítlu frá 1935:

A.: Það var ekki fyrr en eftir 12 ár að ég uppgötvaði það, að ég var ekki skáld.
B.: Og þá hættuð þér að yrkja?
A.: Nei, því þá var ég orðinn frægur.

1 comment:

  1. Anonymous2.2.09

    Hæhó og takk fyrir helgina.

    Hetja helgarinnar; Steindór, fyrir að halda svona lengi í sér. ;)

    híhíhí

    ReplyDelete

Athugasemdir