Tuesday, April 28, 2009

Öndverðir meiðar

Þegar kemur að Evrópumálum hlýtur fólk í megindráttum að skiptast í þrjár fylkingar. Í fyrsta lagi fólk sem er hlynnt aðildarumsókn Íslands að ESB, í öðru lagi fólk sem er henni andvígt og í þriðja lagi fólk sem er alveg sama.

Margir hafa sterkar skoðanir á þessu máli og ég held að fæstir falli í þriðja flokkinn. Jafnvel má ætla að fyrir mörgum sé þetta nógu stórt mál til þess að stefnur flokkanna hvað það varðar hafi skipt sköpum um hvar atkvæði þeirra lenti í nýafstöðnum kosningum.

Fyrir kosningarnar má segja að aðeins hafi tveir flokkar tekið einarða afstöðu með eða á móti aðildarviðræðum við ESB. Það voru einmitt þeir flokkar sem mynduðu 80-daga minnihlutastjórnina, sem þar skipuðu sér á fullkomlega öndverða meiða. Þrátt fyrir að hafa þverandsnúnar skoðanir á þessu mest áberandi kosningamáli sameinast þeir nú um að mynda saman ríkisstjórn og hafa, að því er virðist, þegar leyst úr þessum ágreiningi þannig að Vinstrigrænir gefi Samfylkingunni lausan taum í Evrópumálum en fái í staðinn stóreflt umhverfisráðuneyti til eigin afnota.

Nú spyr ég: Er of langsótt að leggja saman tvo og tvo og komast að þeirri niðurstöðu að þessi atburðarás sé öll sömul fyrir fram ákveðin? Getur verið að flokkarnir hafi tekið sameiginlega ákvörðun snemma í kosningabaráttunni um að skipa sér öfgafullt hvor til sinnar áttarinnar í afstöðunni með og gegn ESB-aðild í von um að tryggja sér atkvæði allra sem hafa sterkar skoðanir á málinu, hvort sem þeir eru andvígir aðild eða fylgjandi?

Bjarni Harðarson, fullveldissinni og bóksali á Selfossi, ritaði grein í Morgunblaðið skömmu fyrir kosningar þar sem hann upplýsti að hann greiddi VG sitt atkvæði vegna Evrópuafstöðu þeirra. Eflaust hafa margir tekið þann sama pól í hæðina. Hvað fær þetta fólk nú fyrir það atkvæði sem það greiddi gegn ESB-aðild? Aukin umsvif umhverfisráðuneytisins? Skyldi það taka því sem ásættanlegri sárabót fyrir uppgjöf VG í Evrópumálum og enga baráttu gegn aðildarviðræðum?

Monday, April 27, 2009

Af nýju þingi

Ég get ekki farið í grafgötur með það hve fátt mér finnst um fína drætti þegar kemur að háttvirtu þingmönnunum okkar 63. Tæplega helmingur þeirra er með öllu reynslulaus (sem sumir virðast líta á sem kost!), lítið sem ekkert af mögulegum ráðherraefnum hefur sérfræðiþekkingu á æskilegu sviði og líklegasti verðandi forsætisráðherrann er Jóhanna Sigurðardóttir.

Á úldinn minnir þingið þara,
það er ljótur fengur.
Fjárhagskreppan fær að vara
fjórum árum lengur.

--

Frónið hefur kreppu kynnst
af kröppum mætti.
Samt er þarft að þess sé minnst
með þessum hætti:
Á Alþinginu fátt mér finnst
um fína drætti.

Sunday, April 26, 2009

Nokkrar ástandsvísur

Ef að sleppa á Ísland hratt
út úr kreppumynstri,
er þá snjallt að stefni statt
og stöðugt allt til vinstri??

---

Ógnarvandi eitlar hér,
ullu klandri sóðar.
Nú til fjandans farin er
framtíð lands og þjóðar.

---

Í tilefni hugmynda um þau mótmæli að éta kjörseðilinn sinn:

Á þingmenn herjar hatrömm pest,
af hefð og gömlum vana.
Ef til vill er bara best
að borða kjörseðlana.

Friday, April 17, 2009

Ég var að hugsa um að fara úr buxum

Þótt setningin í fyrirsögninni beri það e.t.v. ekki með sér svona við fyrstu sýn, þá er hún uppfull af snilli. Snillina er auðveldara að greina þegar setningin er sett upp á þennan hátt:
Ég varhuxum
far' úr buxum.
Þarna er galdratækinu rími beitt á afbragðssnjallan og -frumlegan hátt af sprelligosunum í Baggalúti. Þessa ljóðlínu má heyra undir blálokin á laginu Kósíkvöld í kvöld, sem er uppáhaldslagið mitt þessa dagana. Raunar verður maður að leggja vel við hlustir til að greina snillina, en lagið er byrjað að fjara út (hljóðstyrkur minnkar smám saman) þegar hún á sér stað. Þar að auki er ljóðlínan ekki hluti af texta lagsins, eins og hann er prentaður í bæklingi hljómskífunnar sem hýsir það (hér má hlusta á lagið, lengst til hægri).

Reyndar er víða í laginu beitt afspyrnusmellnu og -skemmtilegu rími og frumlegar leiðir farnar í þeim efnum. Nokkur dæmi:

Skelfing er ég leiður á því að húka hér.
- Ég hugsa að þú þurfir einhvern að strjúka þér.

Algert óhóf, spennulosun og spilling blind.
Sparistellið, franskar vöfflur – og hryllingsmynd.

Mér áskotnuðust vindlar, við skulum púa þá.
- Ég væri til í pottinn, nennirðu að skrúfa frá?

Langaði bara að miðla snillinni - vonandi hefur einhver gaman af þessu.

Wednesday, April 15, 2009

Gerði sig að fífli

Árni Pétur Guðjónsson, leikari, gerði sig að fífli í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun (15. apríl), þar sem hann var m.a. að ræða um ,,hústökufólkið" svokallaða. Þeir sem vilja heyra fíflgjörning Árna geta gert það á þessari slóð: http://dagskra.ruv.is/ras2/4441094/2009/04/15/ - og hlustað frá 33:30.

Að mestu fífli gerði hann sig þegar hann beindi þeim tilmælum til fólks að fara í húsið og tala við þessa krakka - en það þýddi hins vegar ekkert fyrir fullorðið fólk að segja þeim að þetta væri ekkert nýtt, hipparnir í gamla daga hefðu líka gert svona lagað. Svo segir Árni Pétur orðrétt: ,,þú veist, það á bara að skjóta fólk sem segir svoleiðis - það er alveg satt!". Þetta má heyra frá tíma 36:40 og áfram. Þarna hefur Árni Pétur annaðhvort gleymt því í smástund að hann var gestur í útvarpsþætti og eyru stórs hluta þjóðarinnar heyrðu til hans, eða þá að hann er bara ekki betur gefinn en þetta.

En þetta er ekki eina tilvikið í þessu viðtali þar sem Árni gerði sig að fífli. Honum er mikið í mun víðs vegar í viðtalinu að koma að þeirri skoðun sinni að eignarréttur sé nú bara eitthvað kjaftæði, sem hafi ekki gefið okkur neitt. Þegar honum er bent á að það þyrfti nú að hafa samráð við eiganda hússins bregst hann við með orðunum: ,,Samráð við eiganda, samráð við eiganda, þú veist þessi eignarréttur - ég æli bara á þetta. Það er alveg satt! Hvað er þessi eignarréttur, hvað hefur hann gefið okkur þessi eignarréttur?" (37:45 o.áfr.). Þarna lýsir Árni yfir yfirþyrmandi vanþekkingu og gerir sér sennilega ekki ljósan nokkurn skapaðan hlut um þýðingu, inntak eða mikilvægi eignarréttar.

Þessi maður er fenginn í Ríkisútvarpið vikulega til að fara yfir fréttir líðandi stundar. Hann mætti þá sennilega kalla álitsgjafa, en slíkir hafa sprottið upp sem aldrei fyrr á undanförnum mánuðum. Sem skattgreiðandi mótmæli ég veru þessa vanhæfa manns í Ríkisútvarpinu.

-----
Ein lítil braghenda um Michael Jackson að lokum:

Michael Jackson má sinn fífil muna fegri.
Hann var miklu myndarlegri
meðan hann var ennþá negri.

Dropi af kaffi

Hér sit ég á Hlöðunni einu sinni sem oftar. Í þetta skiptið berst ég við lesefni stjórnsýsluréttarins. Mér er víst óhætt að fullyrða að margt veldur meira adrenalínflæði en það.


Ég sit oft lengi og læri -
af lestri er hugur sveittur.
Ó, aðeins að ég væri
ekki svona þreyttur.

Ég tel mig eiga til að,
tíðum, undir pressu,
híma - og hefur bilað
heilinn útaf þessu.

Ég víxla oft ui og vaffi
í værum hvíldarlotum.
Kannski dropi af kaffi
kæmi að góðum notum.

Tuesday, April 14, 2009

Hundurinn Bo

Ég var að lesa frétt á dv.is um að Barack Obama væri búinn að fá sér hund. Dýrinu gaf hann nafnið Bo.

Ég velti fyrir mér hvernig því yrði tekið, ef ég fengi mér hund og nefndi hann SDJ.

Friday, April 10, 2009

Á föstudaginn langa

Davíð Stefánsson frá Fagraskógi er mitt uppáhaldsskáld. Eitt af mögnuðum ljóðum hans á betur við í dag en aðra daga ársins.

Ljóðið birtist í þriðju ljóðabók Davíðs, Kveðjum, sem kom út árið 1924. Sagan af tilurð þess er á þá leið að Davíð dvaldi á gistiheimili í Noregi yfir páska. Meðal annarra gesta voru mæðgur - ung kona og fötluð dóttir hennar, lömuð og bækluð. Á föstudaginn langa langaði fatlaða stúlkubarnið að sækja messu í nálægri kirkju, en móðir þess veigraði sér við að fara. Það varð úr að Davíð fór með stúlkuna til messunnar, þar sem hann varð fyrir einstaklegum áhrifinum - og ljóðið varð til. Davíð taldi víst að nærvera sálar fötluðu telpunnar hafi magnað þau kristilegu áhrif, sem messan hafði á hann.

Eitthvað á þessa leið lýsti Davíð tilurð ljóðsins í bréfi til Ásgeirs Ásgeirssonar, forseta og guðfræðings, sem hafði spust fyrir um efnið.

Á föstudaginn langa e. Davíð Stefánsson

Ég kveiki á kertum mínum
við krossins helga tré.
Í öllum sálmum sínum
hinn seki beygir kné.
Ég villtist oft af vegi.
Ég vakti oft og bað.
Nú hallar helgum degi
á Hausaskeljastað.

Í gegnum móðu og mistur
ég mikil undur sé.
Ég sé þig koma, Kristur,
með krossins þunga tré.
Af enni daggir drjúpa,
og dýrð úr augum skín.
Á klettinn vil ég krjúpa
og kyssa sporin þín.

Þín braut er þyrnum þakin,
hver þyrnir falskur koss.
Ég sé þig negldan nakinn
sem níðing upp á kross.
Ég sé þig hæddan hanga
á Hausaskeljastað. -
Þann lausnardaginn langa
var líf þitt fullkomnað.

Ég bíð, uns birtir yfir
og bjarminn roðar tind.
Hvert barn, hvert ljóð, sem lifir,
skal lúta krossins mynd.
Hann var og verður kysstur.
Hann vermir kalda sál.
Þitt líf og kvalir, Kristur,
er krossins þögla mál.

Þú ert hinn góði gestur
og guð á meðal vor, -
og sá er bróðir bestur,
sem blessar öll þín spor
og hvorki silfri safnar
né sverð í höndum ber,
en öllu illu hafnar
og aðeins fylgir þér.

Þú einn vilt alla styðja
og öllum sýna tryggð.
Þú einn vilt alla biðja
og öllum kenna dyggð.
Þú einn vilt alla hvíla
og öllum veita lið.
Þú einn vilt öllum skýla
og öllum gefa grið.

Að kofa og konungshöllum
þú kemur einn á ferð.
Þú grætur yfir öllum
og allra syndir berð.
Þú veist er veikir kalla
á vin að leiða sig.
Þú sérð og elskar alla,
þó allir svíki þig.

Ég fell að fótum þínum
og faðma lífsins tré.
Með innri augum mínum
ég undur mikil sé.
Þú stýrir vorsins veldi
og verndar hverja rós.
Frá þínum ástareldi
fá allir heimar ljós.

Saturday, April 04, 2009

Málefnalegi Moggabloggarinn

Ég hætti mér óvart inn á Moggabloggsíðuna thj41.blog.is á dögunum og las þetta blogg hér. Þarna fjallar höfundur um að með því að gera hvað hann getur til að hindra að frumvarp til stjórnskipunarlaga nái fram að ganga valdi Sjálfstæðisflokkurinn því að aðeins heiladauð kvikindi munu kjósa hann í vor. Þessari blogfærslu sá ég mig knúinn til að svara, en þá skeði svolítið merkilegt!

Innan nokkurra mínútna hafði bloggarinn eytt færslunni minni og sagt mig kjána á launum frá Valhöll við að dreifa skítabombum um bloggheima, þar sem sannleikurinn um Sjálfstæðisflokkinn kæmi fram. Ef ég reyni að setja færsluna mína aftur inn fæ ég athugasemd um að ekki sé leyfilegt að skrifa athugasemd á þetta blogg úr þessari tölvu.

Athugasemdin sem ég gerði við bloggfærslu þessa manns leit svona út (og dæmi nú hver fyrir sig um réttmæti og ástæður eyðingar hennar):


Þetta er ómálefnaleg bloggfærsla, kæri bókmenntafræðingur.

Þú talar um heiladauð kvikindi og ætlast líklega til að lesandinn skilji það sem þá, sem fylgja Sjálfstæðisflokknum í blindni. Með gagnályktun frá þínum skrifum er hægt að lesa að þú teljir engan viti borinn og þenkjandi mann munu kjósa Sjálfstæðisflokkinn, vegna þess að hann beitir öllum ráðum til að hindra að frumvarp til stjórnskipunarlaga nái fram að ganga.

En nú skulum við setja hlutina í samhengi og færa okkur yfir á málefnalega hlið, sem þú ert e.t.v. óvanur. Hvað munu fyrirhugaðar stjórnarskrárbreytingar hafa í för með sér? Telur þú þig geta svarað því?

Ef svo er þá þykistu vita eitthvað sem þú veist ekki - því enginn veit hvað þær hafa í för með sér. M.ö.o. mun skapast réttaróvissa. Núgildandi lög hafa stoð í núgildandi stjórnarskrá og hafa mótast og þróast með rót í henni. Dómstólar hafa í áratuganna rás mótað efni hennar og annarra laga með hliðsjón af henni. Að stjórnarskrá sé gömul er ekki galli heldur kostur - því eldri og rótgrónari stjórnarskrá, þeim mun meira réttaröryggi. Sú réttaróvissa sem skapaðist með tilkomu nýrrar stjórnarskrár er ekki það sem við þurfum á að halda í þessu efnahagslega fárviðri sem ríður yfir.

Ástæða þessa stjórnskipunarlagafrumvarps er efnahagskreppa - hrun fjármálakerfisins - bankakreppa. EKKI stjórnskipunarkreppa. Þetta ber að hafa hugfast. Það var ekki stjórnskipunin sem klikkaði, heldur efnahagsmálin. Þetta er ekki sami hluturinn, eins og margir virðast halda. Ef þú heldur því fram að efnahagshrunið sé gallaðri stjórnarskrá að kenna máttu gjarnan benda mér á hvaða grein stjórnarskrárinnar það er, sem olli. Að ana út í setningu nýrrar stjórnarskrár á þessum grundvelli er hégómi, því miður.

Sjálfur er ég ekki Sjálfstæðismaður og hef aldrei kosið flokkinn. Með framferði sínu síðustu daga hefur hann aukið líkur þess til muna að nú verði svo í fyrsta skiptið. Þ.a.l. flokkar þú mig líklega sem "heiladautt kvikindi" er það ekki?

Mig grunar að væru málin, sem nú eru í gangi, með öfugum formerkjum, þannig að Sjálfstæðisflokkurinn reyndi að koma í gegn frumvarpinu en aðrir berðust gegn því, að þá mætti greina annan tón hjá þér. Þess vegna ert þú ómálefnalegur, a.m.k. í þessu tilfelli og kannski bara að eðlisfari.

Hver er það, þegar upp er staðið, sem er heiladauður?