Sunday, November 05, 2006

Endalaust stuð og fjör

Í dag eru 156 dagar síðan ég bloggaði síðast. Svo skemmtilega vill til að þriðja rót þessarar tölu er klukkutímafjöldi þess svefns sem ég sé fram á að sofa næstu þrjá dagana.

Þessa dagana er er allt brjálað að gera hjá mér og þegar sú er raunin er mikilvægt að forgangsraða hlutunum. Það kemur oftar en ekki í hlut þess mikla tímaþjófs sem svefninn er að sitja á hakanum enda engin ástæða til að eyða tíma í þannig tilgangslitla vitleysu þegar maður getur verið að semja fyrirlestur um ævi og skáldskap Jónasar Hallgrímssonar eða að lesa latneskar líffræðibækur um blóm.

Á morgun mun ég, ásamt Fúsa, halda fyrirlestur um Jónas Hallgrímsson, hvern markmiðið er að klára fyrir kl. 10.20 í fyrramálið. Svefnleysið í nótt mun orsaka gífurlega þreytu á morgun, þegar yfirvofandi verður líffræðipróf þriðjudagsins. Í ofanálag er borðtennisæfing annað kvöld sem er jú algjörlega óafmissandi eins og gefur að skilja. Að öllum líkindum mun því næsta nótt verða jafnsvefnlítil og þessi, sem mun væntanlega skila sér í gígantískri þreytu minni á þriðjudaginn. Þá þýðir þó ekkert að láta deigan síga! Á miðvikudaginn eru nefnilega á dagskrá tveir fyrirlestrar, sem mér er gert að halda! Á hvorugum þeirra er ég byrjaður og kvíði mikið fyrir. Ekki nóg með þetta, heldur þarf ég einnig að mæta á tveggja klukkustunda hraðlestrarnámskeið á þriðjudaginn. Nú hugsið þið sem nenntuð að lesa alla leið hingað e.t.v. með ykkur: Vá, fær aumingja Steindór þá ekkert að sofa fyrr en eftir skóla á miðvikudaginn? Svarið er nei - ég fæ ekki að sofa á miðvikudaginn! Tíminn milli kl. 15 og 20 á miðvikudaginn er nefnilega undirlagður í tónlistarnám! Fyrir þessa tónlistartíma þarf ég einmitt líka að æfa mig eins mikið og fræðilega er mögulegt næstu daga og það sama gildir um hraðlestrarnámskeiðið.

Persónulegt heimsmet í svefnleysi er sökum framanritaðs óumflýjanlegt.

Munið þið eftir barnatímanum um Bernharð sem átti klukku sem hann gat stoppað tímann með? Mig langar ógeðslega mikið í þannig.