Saturday, January 24, 2009

Skúrkar og hetjur

Síðustu dagar hafa verið tíðindamiklir. Nokkrar hetjur hafa komið fram í látunum, en fleiri skúrkar. Hér fer smáúttekt, langt í frá tæmandi (a.m.k. hvað skúrkana varðar):

Skúrkar:
  1. Ofbeldis- og eyðileggingarskríllinn sem grýtir (auk þess að hreyta mannasaur og hlandi(!) í) lögreglu með skelfilegum afleiðingum og sýnir Alþingi ömurlega óvirðingu með eggja- og grjótkasti, rúðubrotum, málningarslettum og fleiru.
  2. Fólkið sem gerði aðsúg að forsætisráðherra á einkar bjánalegan hátt. Ég vona að það sjái eftir því, einkum í ljósi fréttanna af heilsufari hans. Þarna á meðal er Hallgrímur Helgason, sem ennfremur kemst á skúrkalistann fyrir að gera lítið úr þessu í Kastljósinu í gærkvöldi.
  3. Helgi Seljan fyrir að ganga ekki hart að HH vegna þátttöku sinnar í aðsúgnum að Geir og spyrja hann reyndar ekki rassgat út í það.
  4. Hörður Torfason fyrir algjörlega smekklaus, siðlaus og særandi ummæli í viðtali við mbl.is um veikindi Geirs Haarde.
  5. Guðrún Tryggvadóttir fyrir þessi ummæli: „Ég er ekki farin að finna til með honum ennþá. Ég tel hann heppinn að hafa veikst því nú mun fólk ekki þjarma að honum,“ við AP fréttastofuna.

Hetjur:
  1. Einstaklingarnir, sem stilltu sér upp framan við lögreglu, henni til varnar leggjandi sjálfa sig í hættu, þegar ofbeldisskríllinn réðist að henni með grjót- og saurkasti við Stjórnarráðið á dögunum.
  2. Geir Haarde fyrir ótrúlega stillingu og æðruleysi þrátt fyrir að hafa nýfrétt af alvarlegum veikindum sínum. Ennfremur fyrir að segja þjóðinni frá þeim í magnþrunginni ræðu.
  3. Lögreglan, fyrir vel unnin störf við ómögulegar aðstæður.
Og e.t.v. fleiri.

---
Á morgun, sunnudag, hyggst ég mæta til mótmæla, aldrei þessu vant. Þá á nefnilega að mótmæla hluta af mótmælendum sjálfum, þ.e. þeim sem hafa farið fram með ofbeldi og eyðileggingu. Slík mótmæli styð ég, sbr. þetta:

Við Þingið logar ólgueldur,
emjar skríll af bjálfum.
Mótmæla við mættum heldur
mótmælendum sjálfum.

---
Endum þetta á lítilli skrítlu frá 1935:

A.: Það var ekki fyrr en eftir 12 ár að ég uppgötvaði það, að ég var ekki skáld.
B.: Og þá hættuð þér að yrkja?
A.: Nei, því þá var ég orðinn frægur.

Sunday, January 18, 2009

Skrítlur frá 1935

Eitt af því sem ég gerði mér til dundurs þegar ég átti að vera að læra fyrir sjúkrapróf fyrir skemmstu var að glugga í gömul tímarit sem ég fann á bókasafninu á Selfossi. Þetta voru árgangar 1935-6 af Nýjum kvöldvökum og innihéldu margt athyglisvert, eins og t.d. spádóm virts, bandarísks doktors í efnafræði um það hvernig lífið yrði að hundrað árum liðnum (árið 2035) og grein um niðurstöður nýjustu rannsókna danskra vísindamanna á eðli svefnsins. Á víð og dreif um ritið var svo aragrúi skrítlna, sem vöktu svo mikla kátínu hjá mér að ég fór nokkrum dögum síðar aftur á bókasafnið og ritaði margar af þeim niður. Hér er smásýnishorn af skrítlum frá 1935:


Hann hafði beðið sér stúlku en hún hafði neitað honum.

– O-jæja, sagði hann harmi lostinn, ég býst ekki framar við að ég giftist.

Hrósið, sem í þessu fólst, fór ekki fram hjá stúlkunni og hún sagði brosandi: – Ó, heimskinginn minn, heldurðu að engin stúlka vilji þig þó að ég hryggbryti þig?

– Auðvitað, sagði hann og brosti um leið, – hver heldurðu að vilji mig úr því að þú vildir mig ekki?

---

Fyrirsögn í erlendu blaði: Konan, sem barin var á dögunum af eiginmanni sínum er nú sögð miklu betri.

---

Hann: Ég er svo glaður að ég gæti kysst allt og alla.

Hún: Ertu vitlaus? Nú erum við trúlfuð, og því verður þú að leggja niður öll æskupör þín.

---

Nemandi: Fyrirgefið, herra prófessor, hvað er það, sem þér hafið skrifað hérna á spássíuna á ritgerð minni? Ég get ekki lesið það.

Prófessorinn: Ég skrifaði, að þér ættuð að skrifa læsilegar.

---

Frúin við lækninn: Ég er hrædd um, að maðurinn minn sé ekki með öllum mjalla. Stundum tala ég við hann næstum stanzlaust í heilan klukkutíma, en það er eins og hann heyri ekki eitt einasta orð.

Læknirinn: Þetta eru engin veikindi. Þetta er aðeins hæfileiki hjá manninum yðar.




Skrítlurnar eru teknar orðrétt upp úr Nýjum kvöldvökum, árgangi 1935, útgefnum af Þorsteini M. Jónssyni á Akureyri.

Thursday, January 08, 2009

Pókerboðun

Nú eru 3 dagar í sjúkraprófið mitt í stjórnsýslurétti. Deginum eyddi ég við lestur á bókasafninu á Selfossi. Þar gekk mjög vel að lesa þar til ró minni raskaði smess frá honum Óla Birni. Smessið innihélt óbeina skipun um að ég skyldi mæta í póker í kvöld. Sökum bíræfni smessins (og (að litlum hluta til) þess að þegar skammt er til prófs leita ég stundum allra ráða til að forðast lestur) ákvað ég að gera tilraun til að svara í bundnu máli:

Selfossbókasafni á
sit og les mín fræði.
Ef ég pældi' í póker, þá
ég prófi varla næði.

Núna á ég erfitt mjög,
er það ljóst og sannað.
Að fara bryti farbannslög,
svo ferlega' er það bannað.

Ósköp væri kappa kært
að koma í pókerhófið.
En nóg hef ekki ennþá lært
undir næsta prófið.

Skemmtan vekur skruddan síst -
skelfing þessi bók er.
Öllu betra væri víst
að vera með í póker.

Iðar þráin um minn skrokk -
er að (næstum) deyja.
Heljarvítis fokking fokk!
"Fold!"* ég verð að segja.

Því það er víst enn of snemmt.
Ó, sú djöfuls mæða.
Vona að ykkur vel sé skemmt,
af vinum fé að græða.

Senn mér verður um og ó,
óðar lestur herði.
Ykkur hjá í huga þó
ég hugsa' í kvöld ég verði.


*Hér er gerð krafa um kunnáttu fólks á enskum pókerhugtökum.

Saturday, January 03, 2009

Áramótaskaupið

Gleðilegt ár. 2008 var vissulega skítt, en þetta getur þó ekki orðið verra.

Að heljarbáli vonin varð,
að vonbrigðum varð óskin blíð.
Árið, sem nú gekk í garð
gefi okkur betri tíð
með blóm í haga og birtu og yl
svo batni mein og græði sár.
Víst er ljúft að vera til -
velkomið sé hið nýja ár.


Árið 2008 endaði á sama hátt og öll önnur ár í seinni tíð - með Áramótaskaupinu. Að venju safnaðist allt of stór fjölskyldan saman í allt of lítinn sófa og glápti saman á Skaupið í allt of litlu sjónvarpstæki, sem var allt of langt í burtu og heyrðist allt of lítið í. Allir náðu þó boðskapnum að lokum. Mér heyrist á flestum að þeim hafi þótt Skaupið gott. Þessu er ég ósammála - mér fannst það lélegt. Vissulega hafði það sína ljósu punkta, eins og t.d. Jón Gnarr og biskupssoninn Góa, sem stóð sig afbragðsvel (einkum í gervi Dags B). En í heildina þótti mér þetta lélegt, enda var fallið í þá gryfju sem ég hafði búist við - a.m.k. 9 af hverjum 10 bröndurum fjölluðu um kreppuna. Að mínu viti hefði átt að sleppa kreppubröndurum með öllu og koma fólki þannig skemmtilega á óvart. En nei, það var víst ekki hægt, höldum bara áfram að mjólka og tyggja þetta kreppufár ofan í landsmenn þangað til þeir æla. Í staðinn var ákveðið að sleppa alveg hlutum eins og vörubílafárinu og Sturlu Jónssyni (sem er náttúrulega sér brandari út af fyrir sig). Ég hafði hlakkað mikið til að sjá hann tekinn fyrir. Svo fannst mér Davíð Oddsson afskaplega illa túlkaður og leikinn af kolvitlausum manni. Og textarnir í lögunum voru illa ortir og slæmir.

Bis bald. Adios.