Saturday, May 30, 2009

Á 50 lítrum...

Á bls. 12 í Morgunblaðinu í dag, 30. maí, er merkileg grein eftir Gunnhildi Örnu Gunnarsdóttur um áhrif bensínskattálagningar vinstristjórnarinnar. Á myndrænan hátt er sýnt hver áhrif verðhækkunin hefur á VW Golf annars vegar (bíll A) og Land Cruiser hins vegar (bíll B). Niðurstaðan er þessi, orðrétt upp úr greininni:

Bíll A - fyrir hækkun: 667 km á 50 lítrum
Bíll A - eftir hækkun: 571 km á 50 lítrum

Bíll B - fyrir hækkun: 385 km á 50 lítrum
Bíll B - eftir hækkun: 329 km á 50 lítrum
Svo segir ennfremur, orðrétt:
Bíll A kemst 96 km styttra á 50 lítrum eftir hækkun.
Bíll B kemst 56 km styttra á 50 lítrum eftir hækkun.

Þetta þykja mér stórfréttir! Bölvuð vinstristjórnin hefur greinilega ekki aðeins hækkað verðið á hvern bensínlítra, heldur hefur hún ennfremur séð til þess að hver bensínlítri skili bílnum styttra áleiðis en áður! Sennilega með því að þynna það með vatni.

Hvaða áhrif ætli verðhækkunin á áfengið hafi eiginlega? Þarf framvegis tvær kippur af bjór í stað einnar til að verða sæmilega kenndur?

Wednesday, May 20, 2009

Úr hörðustu átt

Forsíða DV.is þessa stundina (21. maí kl. 02.30) finnst mér með eindæmum skemmtileg. Á áberandi stað er grein, sem segir frá málfræðiambögu Sigmundar Ernis Rúnarssonar, sem sagði fjórum sinnum ,,hvers á þjóðin skilið?" í sinni fyrstu ræðu á Alþingi. DV segir síðar í greininni:
Í fyrstu mátti ætla að um meinlegt mismæli hefði verið að ræða, en því var ekki að heilsa. Sigmundur Ernir ítrekaði amböguna um hvers þjóðin ætti skilið og þegar upp var staðið hafði hann spurt fjórum sinnum með sama orðalagi.
Í sjálfu sér sé ég ekkert athugavert við að DV.is bendi á þetta. Það væri enda varla í frásögur færandi, nema fyrir þá sök að vinstra megin við þessa grein er risastór fyrirsögn, sem segir: ,,Jackson frestar fjórum tónleikum". Á sama hátt og við tölum um fernar buxur (en ekki fjórar) tölum við um ferna tónleika, en ekki fjóra. E.t.v. hefði mátt ætla að þarna væri um meinlega misritun að ræða hjá DV.is, en því er ekki að skipta, enda ítrekar höfundur amböguna í greininni sjálfri.

Meðfylgjandi er mynd af forsíðu DV.is.

Friday, May 15, 2009

Ömmi mælir




Hlustaðu, þjóð, því ég færi þér fögnuð,
svo fljótt munu lýsast upp blikur.
Nú leysi ég vandann og lausnin er mögnuð!
Sú lausn - er að skattleggja sykur.



Tuesday, May 12, 2009

Skipt um Jóhönnu

Því miður reyndist sú Jóhanna sem átti að tala máli Íslands út á við og sýna umheiminum að á Íslandi búa ekki bara álfar út úr hólum vera álfur út úr hól og að auki haldin útlendingafælni á hæsta stigi.

Því hefur verið skipt um Jóhönnu til að gegna þessu hlutverki. Hin nýja er ólíkt myndarlegri og þorir ekki aðeins að tala við útlendingana, heldur syngur hún fyrir þá líka.



Monday, May 11, 2009

Ég fylgist með ykkur...

Fyrir um mánuði síðan tengdi ég fullkomnustu útgáfuna af Teljara Modernus (þar sem ég vinn) við bloggsíðuna mína. Teljarinn býður upp á fjöldann allan af skemmtilegum möguleikum. M.a. sé ég hvaðan þið, lesendur góðir, sækið síðuna, og get fengið upplýsingarnar settar upp á smekklegan hátt í skífurit. Hér eru dæmi um tvo daga, þar sem skiptingin milli Reykjavíkur og landsbyggðarinnar kemur sérstaklega skemmtilega út:
Ennfremur get ég sótt upplýsingar um greiningu notenda vefjarins eftir löndum. Síðan ég gangsetti teljarann hefur fólk frá Danmörku, Noregi, Þýskalandi, Frakklandi, Bandaríkjunum, Kanada, Kólumbíu og Viet Nam álpast inn á síðuna. 93,9% af ykkur, notendur góðir, komið þó frá Íslandi.

Saturday, May 09, 2009

Leiðandi spurningar

Ég hef tvisvar starfað sem símasölumaður og í bæði skiptin setið námskeið, þar sem kennt var hvernig best er að plata fórnarlamb símasölu til að kaupa það sem selja skal. Lykilatriði er að spyrja leiðandi spurninga. T.d. er, að lokinni vörukynningu, óvænlegt að segja: ,,hvernig líst þér á þetta?". Frekar skaltu segja: ,,Líst þér ekki bara vel á þetta?"

Þetta bragð kunna þeir sem framkvæma skoðanakannanir (og vita hvaða niðurstöðu þeir vilja sjá) líka. Þannig sýna skoðanakannanir, sem ESB-sinnar þreytast seint á að vitna í, að meirihluti þjóðarinnar vilji
,,fara í aðildarviðræður". En í spurningunni ,,vilt þú að Ísland fari í aðildarviðræður við ESB?" felst blekking. Þarna er reynt að hylma yfir þá staðreynd að ,,aðildarviðræður" eru eftirleikur aðildarumsóknar. Hlutlaus spurning væri: ,,Vilt þú að Ísland sæki um aðild að ESB?" Ég er ekki viss um að jafnmargir myndu svara þeirri spurningu játandi. Svo illa vill hins vegar til að framkvæmendur ESB-kannana eru ESB-sinnar, eins og sannast á orðalagi spurninganna.

Margir, einkum fjölmiðla- og stjórnmálamenn auk að sjálfsögðu þorra moggabloggara, halda því fram að ekkert neikvætt geti mögulega falist í því ,,að fara í aðildarviðræður" og að þeir sem séu á móti því séu bæði þverir og vitlausir. En hvað eru aðildarviðræður annað en afleiðing aðildarumsóknar? Og hvað er umsókn um aðild að ESB annað en
yfirlýsing um vilja til að ganga í ESB? Ef fyrirtæki auglýsti laus störf og segði alla sem sæktu um fá starfsviðtal, væru þá allir sem ekki vildu sækja um þverir og vitlausir? Fælist ekki í umsókninni yfirlýsing um að vilja fá starfið?

Af sömu ástæðu og ég vil ekki lýsa yfir vilja til að ganga í ESB vil ég ekki sækja um aðild - og þar af leiðandi ekki heldur fara í aðildarviðræður. Þetta er eins og það að ef ég væri vinstrigrænn umhverfissinni myndi ég líklega ekki vilja sækja um starf í álveri (þ.e. fara í starfsviðræður við álver).

Hættum svo að nota þetta asnalega orð, aðildarviðræður, sem Samfylkingin með hjálp fjölmiðla í landinu hefur tekist að gera að ráðandi hugtaki yfir það sem með réttu heitir aðildarumsókn.

Tuesday, May 05, 2009

Af raunum laganemans

Hafin enn og aftur próf -
endurtekin saga.
Nú fæst ég mest við meðalhóf
og meginreglur laga.

Glósur veð ég hátt í háls
og heftin gegnum malla.
Enda, skv. eðli máls,
ekki tækt að falla.

Mér er hvorki ljúft né létt
að lesa - og það í skyndi -
eina bók um eignarrétt
og aðra um veðréttindi.

Verst af öllu þó er það,
sem þyrfti helst að skána,
að þurfa að kunna utan að
alla stjórnarskrána.

Já, námið, það er bölvað baks
og basl, sem hjartað stingur.
Ó, ef ég gæti aðeins strax
orðið lögfræðingur.

Sunday, May 03, 2009

Sammála ósammála.is

Á osammala.is fer fram undirskriftasöfnun gegn aðild Íslands að ESB. Vefurinn er augljóslega settur upp til höfuðs vefnum sammala.is, þar sem undirskriftasöfnun andstæðs markmiðs fer fram. Rúmlega 14 þús. manns hafa skráð sig á sammala.is og rúmlega 4 þús. á osammala.is. Þess ber þó að geta að sammala.is var stofnaður 17. mars og hefur mikið verið auglýstur og kynntur en osammala.is var stofnaður 22. apríl og hefur ekkert verið auglýstur.

Meðal krafna sem osammala.is gerir er þessi hér:
Það er ennfremur skoðun okkar að ef til þess kæmi að sótt yrði um inngöngu í Evrópusambandið sé það eðlileg krafa að aukinn meirihluta kjósenda þurfi til þess að hún nái fram að ganga. Ekki sé ásættanlegt að slíkt hitamál yrði samþykkt einungis með naumum meirihluta.
Þessu er ég afskaplega sammála. Mér finnst ekki ásættanlegt að naumur meirihluti þjóðarinnar geti neytt nauman minnihluta inn í Evrópusambandið. Og ekki nóg með það að naumur minnihluti þeirrar þjóðar sem núna byggir landið yrði þannig neyddur þangað inn, heldur yrðu ókomnar kynslóðir neyddar þangað líka. Við megum ekki gleyma því að íslenska þjóðin tekur sífelldum breytingum. Hvaða rétt hefur helmingur þjóðarinnar sem byggir landið á einum tímapunkti til að taka ákvörðun, sem hlekkir ekki bara hinn helminginn heldur líka allar ókomnar kynslóðir höndum og fótum þungum hlekkjum Evrópusambandsins?

Ég óttast að ef sú þjóð sem núna byggir Ísland lætur tímabundna efnahagserfiðleika hrinda sér út í það að semja sig inn í Evrópusambandið - afsala til Brüssel því fullveldi sem forfeður okkar börðust fyrir um þarsíðustu aldamót - verði hún fordæmd fyrir sjálfselsku og eigingarni, hugleysi og aumingjaskap - jafnvel landráð - af komandi kynslóðum. Það er skammgóður vermir að pissa í skóinn sinn - ef þá leið á að fara finnst mér annað ótækt en að um það sé sammála þorri þjóðarinnar en ekki helmingur.


Á Frónsins feigðartákni
nú fjarskamikið ber.
Mér býður við því bákni
sem bandalagið er.