Tuesday, September 01, 2009

Á bragaþingi í Efri-Vík 2009

Lesið upp á bragaþingi í Efri-Vík 29. ágúst 2009:


Í kvöld, kæru gestir, þér kvæðamenn mestir,
kveikjum vér ljóðanna eld
og vonum að pestir og vanheilsubrestir
verði oss fjarri í kveld.

Amann vér kyrjum er andann vér styrkjum -
á amstrinu vinnum vér bug.
Blýantinn virkjum - af alúð vér yrkjum
um allt, sem oss dettur í hug.

Um heima og geima lát stuðlana streyma
og um stórbrotna kvæðanna borg.
Vér látum oss dreyma - hér leyfist að gleyma
lífsins angist og sorg.

Sem tíðkaðist forðum, vér tendrum og skorðum
vort tungumál ennþá að vild.
Og sjá, hér að borðum fólk situr, sem orðum
kann saman að raða af snilld.

Í kvöld, kæru gestir, þér kvæðamenn mestir
sigla kvæðin hinn ljóðræna sjó.
Nú held ég að flestir, sem hér eru sestir,
hafi af mér fengið nóg.

2 comments:

  1. Anonymous3.9.09

    Flott hjá þér Steindór minn.

    ReplyDelete
  2. Sandra14.9.09

    Ég fæ aldrei nóg af þér :)

    ReplyDelete

Athugasemdir