Thursday, January 08, 2009

Pókerboðun

Nú eru 3 dagar í sjúkraprófið mitt í stjórnsýslurétti. Deginum eyddi ég við lestur á bókasafninu á Selfossi. Þar gekk mjög vel að lesa þar til ró minni raskaði smess frá honum Óla Birni. Smessið innihélt óbeina skipun um að ég skyldi mæta í póker í kvöld. Sökum bíræfni smessins (og (að litlum hluta til) þess að þegar skammt er til prófs leita ég stundum allra ráða til að forðast lestur) ákvað ég að gera tilraun til að svara í bundnu máli:

Selfossbókasafni á
sit og les mín fræði.
Ef ég pældi' í póker, þá
ég prófi varla næði.

Núna á ég erfitt mjög,
er það ljóst og sannað.
Að fara bryti farbannslög,
svo ferlega' er það bannað.

Ósköp væri kappa kært
að koma í pókerhófið.
En nóg hef ekki ennþá lært
undir næsta prófið.

Skemmtan vekur skruddan síst -
skelfing þessi bók er.
Öllu betra væri víst
að vera með í póker.

Iðar þráin um minn skrokk -
er að (næstum) deyja.
Heljarvítis fokking fokk!
"Fold!"* ég verð að segja.

Því það er víst enn of snemmt.
Ó, sú djöfuls mæða.
Vona að ykkur vel sé skemmt,
af vinum fé að græða.

Senn mér verður um og ó,
óðar lestur herði.
Ykkur hjá í huga þó
ég hugsa' í kvöld ég verði.


*Hér er gerð krafa um kunnáttu fólks á enskum pókerhugtökum.

3 comments:

  1. Anonymous12.1.09

    Já, Óli sýndi okkur þetta í pókernum. Við áttum ekki til orð.

    Hversu langan tíma tók það þig að yrkja þetta?

    -Valdi

    ReplyDelete
  2. Anonymous15.1.09

    Hehe þetta tók alveg þónokkrar mínútur - mínútur sem gætu valdið handabakanögun þegar ég fæ út úr stjórnsýsluprófinu ...

    -Steindór

    ReplyDelete
  3. Anonymous16.1.09

    Til hamingju með afmælið víst. Megi Óðinn veita þér frekari skáldgáfu á þessum degi.

    ReplyDelete

Athugasemdir