Monday, March 02, 2009

Ósammála Sigurði Líndal

Það gerist ekki oft að fólk treysti sér til að vera ósammála Sigurði Líndal þegar kemur að lögfræði. Það gerðist þó eitt sinn í tíma sem ég sat hjá prófessor Róbert R. Spanó í almennri lögfræði að Róbert sagðist ósammála túlkun Sigurðar Líndal á ákveðnum dómi Hæstaréttar. Hélt Róbert í kjölfarið langa tölu um að þegar menn væru ósammála Sigurði um hvaðeina lögfræðilegt tækju þeir mikla áhættu. Sagðist hann sjálfur sjaldan treysta sér til þvílíks og þá aðeins að mjög vel ígrunduðu máli. Síðan rökstuddi Róbert í þaula hvernig og af hverju hann var ósammála Sigurði.
Þess má geta að Róbert hefur auk embættisprófs í lögfræði frá HÍ meistaragráðu á sviði ríkisréttar með ágætiseinkunn frá Oxford, þaðan sem hann hlaut verðlaun fyrir afburðanámsárangur.

Í fréttum RÚV sl. föstudag gerðist sá fátíði atburður aftur, að einhver taldi sig bæran til að vera ósammála Sigurði Líndal um lögfræðilegt álitaefni. Þarna var á ferð Jóhanna Sigurðardóttir, sem sagðist ósammála þeirri túlkun Sigurðar að það sé stjórnarskrárbrot að setja Norðmann í íslenskt embætti. Í 2. mgr. 20. gr. stjórnarskrárinnar segir að engan megi skipa embættismann nema hann hafi íslenskan ríkisborgararétt. Sigurður telur í þessu felast að á sama hátt megi engan setja embættismann, en slíkt er eðlileg túlkun þegar litið er til markmiðs ákvæðisins (að Íslendingar, en ekki útlendingar taki afdrifaríkar ákvarðanir fyrir Ísland). Jóhanna sagði reyndar að girt hefði verið fyrir þetta, með seðlabankalögunum sem gengu í gildi í lok síðustu viku. Hún virðist sem sagt einnig ósammála því að stjórnarskráin sé æðri almennum lögum frá Alþingi. Þegar fréttamaður spurði hana hvernig hennar lög gætu verið æðri stjórnarskrá svaraði hún: ,,Það sem er grundvallaratriði er að við erum hér að skipa toppmann í þessa stöðu."
Þess má geta að Jóhanna hefur verslunarpróf frá Verslunarskóla Íslands.

Hér má sjá skemmtilega kenningu Mána Atlasonar um það hví Jóhanna er óbundin stjórnarskrá.

1 comment:

  1. Anonymous4.12.10

    skemmtilegur texti hjá þér =) en því miður er kenning Mána Atlasonar horfin.

    ReplyDelete

Athugasemdir