Saturday, May 30, 2009

Á 50 lítrum...

Á bls. 12 í Morgunblaðinu í dag, 30. maí, er merkileg grein eftir Gunnhildi Örnu Gunnarsdóttur um áhrif bensínskattálagningar vinstristjórnarinnar. Á myndrænan hátt er sýnt hver áhrif verðhækkunin hefur á VW Golf annars vegar (bíll A) og Land Cruiser hins vegar (bíll B). Niðurstaðan er þessi, orðrétt upp úr greininni:

Bíll A - fyrir hækkun: 667 km á 50 lítrum
Bíll A - eftir hækkun: 571 km á 50 lítrum

Bíll B - fyrir hækkun: 385 km á 50 lítrum
Bíll B - eftir hækkun: 329 km á 50 lítrum
Svo segir ennfremur, orðrétt:
Bíll A kemst 96 km styttra á 50 lítrum eftir hækkun.
Bíll B kemst 56 km styttra á 50 lítrum eftir hækkun.

Þetta þykja mér stórfréttir! Bölvuð vinstristjórnin hefur greinilega ekki aðeins hækkað verðið á hvern bensínlítra, heldur hefur hún ennfremur séð til þess að hver bensínlítri skili bílnum styttra áleiðis en áður! Sennilega með því að þynna það með vatni.

Hvaða áhrif ætli verðhækkunin á áfengið hafi eiginlega? Þarf framvegis tvær kippur af bjór í stað einnar til að verða sæmilega kenndur?

No comments:

Post a Comment

Athugasemdir