Við Halla áttum eins og hálfs árs afmæli um daginn og í tilefninu gaf Halla mér glæsilegt bókamerki sem hún saumaði sjálf (með ofurfíngerðu, ísaumuðu píanóborði) og frábæra bók um ævi Jónasar Hallgrímssonar eftir Böðvar Guðmundsson. Sennilega hefði mér ekki dottið sjálfum í hug að kaupa þessa bók (hvað þá að sauma mér bókamerki) en eigi að síður er ég yfir mig ánægður með hvort tveggja og gæti hreinlega ekki án þessa verið. Bókin er stutt og hnitmiðuð og fullkomin fyrir þá sem vilja fræðast betur um eitthvað jafnáhugavert og ævi Jónasar Hallgrímssonar án þess að nenna að hafa of mikið fyrir því, t.d. með lestri umfangsmikillar ævisögu. Þetta er dæmi um framkvæmd minimal-maximal-prinzipsins og gengur út á að ná hámarksárangri með lágmarksfyrirhöfn. Það kenndi pabbi mér fyrir löngu síðan og hefur nýst afbragðsvel, t.d. í námi.
Til Höllu:
Þú þekkir betur mig og mín
mál en ég geri sjálfur.
Vegna þessa varla án þín
ég væri nema hálfur.
Tuesday, March 31, 2009
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
Þakka afbragð góða ferskeytlu og njóttu vel :)
ReplyDeleteHalla, þetta er ekki ferskeytla...en hvar er færslan um Darra?
ReplyDeleteJá og til hamingju.
til hamingju elskur!
ReplyDeletefallegt ljóð Steindór :)
og ég tek undir... hvað varð um færsluna sem notuð var til að narra mig hingað af eigin síðu?
;)
Takk fyrir, WG. Einhver tækniannmarki í færslunni um Darra olli því að notendur Internet Explorer vafragerðar gátu ekki skoðað síðuna. Þú getur réttímyndað þér hversu kvörtunarbréfunum rigndi í pósthólfið mitt sökum þessa, svo ég sá mér ekki annað fært en að fjarlægja færsluna. Hún ratar sennilega aftur inn þegar tæknideildin hefur komist að rótum meinsins og kippt þessu í lið.
ReplyDeleteStaka með fjórum línum, stuðlum og höfuðstöfum er í hinu daglega tali oft sögð vera ferskeytla þó hún flokkist kannski ekki undir það í ströngustu bragareglum!
ReplyDeleteTja..... bendi þér á þessa síðu eftir Jón Ingvar ( Bölverk ) http://www.heimskringla.net/bragur/Ferskeytla.php
ReplyDeleteFerskeytlur eru ekki allar vísur með fjórum línum, stuðlum og höfuðstöfum. ;)
This comment has been removed by the author.
ReplyDeleteÞetta er ferskeytla núna..
ReplyDeleteRétt er það, Wayne, sú breyting var lítill brandari sem útskýrðist í commenti nr. 7 að ofan, sem e-a hluta vegna hvarf.
ReplyDeleteEn upphaflega vísan sem fylgdi færslunni og olli þessum hatrömmu deilum var svona:
Ég held þú þekkir flestöll málin mín
mikið betur en ég geri sjálfur.
Því er nokkuð víst að varla án þín
ég væri nema í besta falli hálfur.
Forsaga málsins er kunn - og ekki verður hjá því komist að einræðisherra þessa vefseturs blandi sér í umræðuna.
Orðið ferskeytla er ákveðið hugtak. Hér greinir fólk á um merkingu hugtaksins - þ.e., hvað rúmast getur innan merkingarfræðilegs ramma þess. Inntak hugtaksins má túlka á marga vegu - t.a.m. þröngt eða rúmt. Bragfræðin túlkar hugtakið þröngt, þ.a. aðeins sú vísa sem er fjórar hendingar, fjórar og þrjár tvíliða kveður til skiptis og með karl- og kvenrím til skiptis má kalla ferskeytlu. Hinn almenni borgari, sem ekki hefur mikinn áhuga á bragfræði, mundi að líkindum túlka hugtakið rýmra - jafnvel svo rúmt að hann kalli hvert einasta ljóð ferskeytlu. Bragfræðilega þenkjandi fólk verður að veita þessum almenna borgara ákveðið svigrúm hvað túlkun sérstakra hugtaka bragfræðinnar varðar. Varla entist nokkrum bragfræðingi nenna til að leiðrétta leikmann í hvert sinn sem hinn síðarnefndi færi með bragfræðilegar fleipur.
Þetta þýðir þó ekki að bragfræðingurinn megi aldrei gera athugasemd við bragfræðifleipur leikmannsins. Ef leikmaðurinn segði til dæmis Einræður Starkaðar e. Einar Benediktsson fjári góða ferskeytlu væri bragfræðingnum beinlínis skylt að benda leikmanninum á villu sína.
En hvar á að draga mörkin? Því er vandsvarað. Skv. skilgreiningu íslenskrar orðabókar á hugtakinu ,,stöku" þýðir það stök vísa eða ferskeytla. Skv. því er vísan sem upphaflega skreytti bloggið ferskeytla, ef viðurkennt er að hún sé staka. Sama bók skilgreinir hugtakið ferskeytlu svo að það sé vísa með fjórum stuttum braglínum. Undir þá skilgreiningu félli umdeild vísa sennilega ekki, enda braglínurnar 5 tvíliða kveður (eða heldur langar).
Meta verður hvert tilfelli fyrir sig hvað þetta varðar. Ýmis sjónarmið mætti leggja til grundvallar slíku mati, t.a.m. alvarleika brotsins og þá gjarnan í samanburði við skapgerð þess einstaklings sem í hlut á hverju sinni (tekur viðkomandi einstaklingur gagnrýni allajafna vel, eða verður viðkomandi einstaklingur allajafna pirraður þegar hann er leiðréttur?) Persónulega hefði ég ekki gert athugasemd við þessa hugtaksnotkun í þessu tilfelli.
Að lokum vek ég athygli á því að sú vísa sem nú prýðir bloggið er ekki sú upphaflega - þá upphaflega má sjá efst í þessu commenti. Sú vísa sem nú prýðir bloggið er óumdeild ferskeytla.
Tja.
ReplyDeleteSjálfur veit ég ekki hvað íslenska orðabókin segir að orðið 'staka' þýði. Segi hún nákvæmlega " stök vísa eða ferskeytla ", er þá ekki verið að meina að orðið geti merkt hvort tveggja?
--
"Vísa með fjórum stuttum braglínum" lýsir ferskeytlu. En ekki nákvæmlega. Hægt er að lýsa stafhendu, stikluvikum, gagaraljóðum ,samhendu o.fl. alveg eins. Ekki finnst mér líklegt að í orðabókinni sé að finna nákvæma lýsingu á ferskeytlu - heldur stutta lýsingu, eins og orðabókin á að gera. Bragfræðibækur lýsa þessu með meiri nákvæmi. Ef einhver spyrði mig hver Darri Hilmarsson væri myndi ég svara " Hann er körfuboltamaður í KR". Eins myndi ég svara ef ég væri spurður um hver Jakob Örn Sigurðarson væri.
" ...með meiri nákvæmni." á auðvitað að standa þarna.
ReplyDeleteÉg gáði í orðabókina - hún segir við stöku : " stök vísa, ferskeytla." Ég skil það sem svo að staka sé stök ferskeytla. Reyndar var það ekki sú merking sem ég taldi orðið hafa - en það passar, allar stökur sem ég þekki eru ferskeytlur. Fljúga hvítu fiðrildin, hani , krummi , hundur, svín , o. fl.
ReplyDeleteOk.. þetta er komið aðeins út fyrir venjuleg mörk hérna.. já ég sagði ferskeytla en trúi ekki að það sé svona risavaxið vandamál WG að þú þurfir að hengja þig svona í það og með því skemma þetta mjög svo góða blogg og fallegu vísu (má ég segja það eða kemur önnur ræða??) sem var til mín og mér þykir mjög vænt um.
ReplyDeleteVinsamlegast skemmdu hana ekki meira.. því hún og bloggið hefur misst heilmikið af sínum sjarma með því að greina þetta svona niður í smáatriði!
Mér sýnist þú, WG minn kæri, ekki skilja til hlítar inntak pistilsins míns í commenti nr. 9. Einnig skynja ég ei( )lítinn orðhengilsfnyk af skrifum þínum.
ReplyDeleteSvo ég útskýri betur inntak síðasta pistils míns: Við megum ekki gera óréttmætar kröfur til fólks. Þú, verandi sérfræðingur á sviði bragfræði, verður gera þér ljóst að venjulegt fólk hefur ekki sérfræðikunnáttu á því sviði. Ég tel þá kröfu að venjulegt fólk kunni bragfræðilega skilgreiningu hugtaksins ferskeytla ekki réttmæta. Þannig vill að ferskeytla er eitt af almennari hugtökum bragfræðinnar og því er eðlilegt að fólk noti þetta hugtak þegar það talar um vísu af e-u tagi. Óeðlilegt væri að gera þá kröfu til bragfræðilega lítt þenkjandi aðila að þeir þekktu skilgreiningaratriði hugtaksins skv. þeirri fræðigrein.
Okkur greinir ekki á um merkingu hugtaksins ferskeytla, ég vek athygli á því (mér virðist sem þú hafir haldið það). Úr ofangreindum skrifum mínum geturðu lesið mína skoðun á því hvaða kröfur er réttmætt að gera til almennra aðila um þekkingu á bragfræði. Um þetta getum við vel verið ósammála, enda ekkert nema eðlilegt.
Nú hef ég lokið mínum afskiptum af þessu máli.