Monday, February 22, 2010

Skáldið frá Fagraskógi

I

Um aldir skulu lifa í manna minnum
máttug kvæðin, fyrir vorum sýnum.
Engum dylst að friðinn enn vér finnum
í fegurst kveðnu skáldaverkum þínum.

Því dís frá himnum hörpu þína snerti
og huga þínum veitti blessun sína.
Þótt yrðu til við ljós frá litlu kerti,
ljóð þín fengu sólu til að skína.

Til himins sveifstu, svörtum fjöðrum þöndum
og sóttir mátt og styrk hjá anda merkum.
Og fátæk orð, þau urðu í þínum höndum
að undurfögrum, dáðum listaverkum.

II

Þótt sumir beindu að þér aumum rógi
og illmælum - það dugði ei nokkuð til. -
Svo fékk þinn andi af Fjölnis merka plógi
að frægðarverk þín mynda engin skil.
Þau lifa ennþá, skáld frá Fagraskógi,
og skapa vorum hjörtum varman yl.

Þótt farinn sértu man þig minnug þjóðin.
Hún man þig, sem þú værir hér í gær.
Því eitt er víst, að lengi lifir glóðin
og lífsins heiti, fagurrauði blær,
sem okkur færðu leikrit þín og ljóðin.
Enn lýsir stjarnan þín, svo undurskær.

Hún sendir frá sér geisla þann, er glitrar
og græðir jafnvel dýpstu hjartasár.
Og þerrir lítinn dropa, sem að sytrar
um sálarinnar myrku ólgugjár.
Og ef sá dropi enn á hvarmi titrar,
þá er hann bara lítið gleðitár.

III

Þú ortir ljóð um fagran Eyjafjörð
og fræ, sem urðu að deyja í grýttri jörð.
Um dalakofa og hvíta tjarnarálft,
um Katarínu - og um lífið sjálft.

Og sólin hefur sálu þína kysst,
og sál þín fékk að kynnast þeirri list
sem situr hátt við himnaríkis borð,
og hönd þín færði listina í orð.

Og þjóðin hefur þína strengi snert,
og þjóðin hefur einstakt starf þitt erft.
Því þú ert fræ, sem hlaust þann helga dóm
að hafna í jörð og verða eilíft blóm.

Thursday, February 04, 2010

Snorri og sandurinn

Afi Árnason er duglegur að benda mér á yrkisefni. Nýjasta dæmið er af Snorra nokkrum, ágætum vini afa míns og bónda á Sogni í Kjós, skammt frá sumarbústað ömmu og afa - Vinaminni. Nú bar svo við að afa vantaði sand, skít og/eða mold til að næra kartöflubeðið. Í september sagðist Snorri mundu redda þessu eins og skot, en enn bíður afi og þykist vita að biðin muni teygja sig fram á vor. Hann langaði til að senda Snorra ábendingu um þetta, í bundnu máli, og svo hljóðar hún:

Mig vantaði sand og ég sagði við marga
að sandinn ég þyrfti, mitt beð til að prýða.
Og snöggvast því ætlaði Snorri að bjarga
og snemma í september fór ég að bíða.

En biðin, hún teygði sig brátt yfir jólin
og bíða mun vafalaust fram yfir þorra,
en þá kemur vorið og þá kemur sólin
og þá kemur vonandi kerran hans Snorra.