Monday, April 27, 2009

Af nýju þingi

Ég get ekki farið í grafgötur með það hve fátt mér finnst um fína drætti þegar kemur að háttvirtu þingmönnunum okkar 63. Tæplega helmingur þeirra er með öllu reynslulaus (sem sumir virðast líta á sem kost!), lítið sem ekkert af mögulegum ráðherraefnum hefur sérfræðiþekkingu á æskilegu sviði og líklegasti verðandi forsætisráðherrann er Jóhanna Sigurðardóttir.

Á úldinn minnir þingið þara,
það er ljótur fengur.
Fjárhagskreppan fær að vara
fjórum árum lengur.

--

Frónið hefur kreppu kynnst
af kröppum mætti.
Samt er þarft að þess sé minnst
með þessum hætti:
Á Alþinginu fátt mér finnst
um fína drætti.

2 comments:

  1. Gefum fólki nú tækifæri áður en við ákveðum að allt verði ömurlegt og reynum að vera jákvæð. Kostirnir við nýtt fólk eru nýjar hugmyndir og ný sýn á hlutina sem er gott. Svo hefur þetta fólk líka allskonar reynslu þó það sé ekki af alþingi. Reynsla fólks þarf ekki alltaf að metast af menntun og árum í háskóla - þó að fólk hafi verið lengi í skóla og lært mikið er það ekki sjálfkrafa tilvalið inn á þing.

    Það fer ekki eftir menntun heldur fyrst og fremst manneskjuna sem aðilinn hefur að geyma. Menntun hefur gert margan manninn hrokafullan og kannski er komin tími til að breyta aðeins til og minnka hrokann inn á alþingi.
    En hvað veit ég, ég er bara með stúdentspróf:)

    ReplyDelete
  2. Vissulega margt til í þessu. Þó má ekki einskismeta gildi menntunnar - síðast þegar ég vissi var mennt ennþá máttur.

    Það sem ég á við reynsluleysi er að 27 (minnir mig) af 63 þingmönnum hafa ekki setið þar áður. Að sjálfsögðu er gott að fá ferskt blóð og nýjar hugmyndir og allt það, en öllu má ofgera og allt er best í hófi. Þingmennska er starf eins og hvað annað og það tekur tíma að setja sig inn í nýtt starf. Það gildir um öll störf og einkum og sér í lagi þingmennsku, þar sem flóknar reglur gilda um starfann.

    Vinnustaður, þar sem helmingi starfsfólks er skipt út fyrir nýtt fólk, hlýtur að lamast að e-u leyti við þá blóðtöku og það hlýtur að taka tíma fyrir hann að ná sér á strik, enda þarf að setja nýja fólkið inn í nýja starfið sitt.

    Það veldur mér dálitlum áhyggjum að svo stórt hlutfall þingmanna sé nýliðar, einkum nú þegar álagið á stofnunina Alþingi hefur sjaldan verið meira.

    Hitt er annað mál að auðvitað metum við ekki fólk að verðleikum út frá menntuninni einni saman. Auk þess veit ég lítið um hvað þetta nýja fólk er menntað (fyrir utan að ein úr borgarahreyfingunni kallar sig skáld!), það getur vel verið sprenglært. Þó hef ég grun um að jarðfræðingur muni stjórna fjármálaráðuneytinu og flugfreyja forsætisráðuneytinu.

    ReplyDelete

Athugasemdir