Tuesday, June 09, 2009

Skáldið, sem nennt'ekk'að yrkja

Það er gæfa að fá að starfa við eitthvað sem manni finnst skemmtilegt. Þannig hef ég alltaf öfundað atvinnuíþróttamenn, t.d. Tiger Woods. Margir eru hins vegar í þeirri stöðu að finnast leiðinlegt í vinnunni. T.d. mætti ímynda sér skáld, sem finnst leiðinlegt að yrkja. Þetta óheppna skáld gæti e.t.v. komið hugsunum sínum á blað e-n veginn svona:


Nú get ég ekki orða bundist.
Ó, mér hefur lengi fundist
erfitt hug minn visna að virkja -
verða sífellt meir að yrkja.
Mér það vekur vondan leiða
að vaða stuðladjúpið breiða.
Grafa í mosagróna þanka -
grípa í tóman orðabanka.
Sí og æ með orð að bruðla,
en sú mæða að finna stuðla,
afla ríms og réttra orða
úr ræfilslegum orðaforða.
Ég alla daga veð í villu
á verulega rangri hillu,

því fátt er leiðinlegra en það
að láta stuðlað rím á blað.

Friday, June 05, 2009

Steindor.is

Hingað til hefur verið algengt það vandamál, að fólk kæmist ekki inn á síðuna mína, því það gat ekki munað slóðina. Þetta átti meðal annars við um mömmu. Á þessu hefur nú verið ráðin bót, því nú má sækja þessa síðu með því að stimla einfaldlega: www.steindor.is í vafragluggann.



www.steindor.is



Internet á Íslandi (ISnic) býður nú upp á þá frábæru þjónustu að áframsenda fyrir mann ákveðið lén yfir á aðra síðu. Núna geta bloggarar sem sagt farið á www.isnic.is og stofnað sitt eigið .is-lén (t.d. steindor.is) og látið þá, sem það lén stimpla í vafrann sinn, lenda á blogsíðunni sinni.