Friday, April 10, 2009

Á föstudaginn langa

Davíð Stefánsson frá Fagraskógi er mitt uppáhaldsskáld. Eitt af mögnuðum ljóðum hans á betur við í dag en aðra daga ársins.

Ljóðið birtist í þriðju ljóðabók Davíðs, Kveðjum, sem kom út árið 1924. Sagan af tilurð þess er á þá leið að Davíð dvaldi á gistiheimili í Noregi yfir páska. Meðal annarra gesta voru mæðgur - ung kona og fötluð dóttir hennar, lömuð og bækluð. Á föstudaginn langa langaði fatlaða stúlkubarnið að sækja messu í nálægri kirkju, en móðir þess veigraði sér við að fara. Það varð úr að Davíð fór með stúlkuna til messunnar, þar sem hann varð fyrir einstaklegum áhrifinum - og ljóðið varð til. Davíð taldi víst að nærvera sálar fötluðu telpunnar hafi magnað þau kristilegu áhrif, sem messan hafði á hann.

Eitthvað á þessa leið lýsti Davíð tilurð ljóðsins í bréfi til Ásgeirs Ásgeirssonar, forseta og guðfræðings, sem hafði spust fyrir um efnið.

Á föstudaginn langa e. Davíð Stefánsson

Ég kveiki á kertum mínum
við krossins helga tré.
Í öllum sálmum sínum
hinn seki beygir kné.
Ég villtist oft af vegi.
Ég vakti oft og bað.
Nú hallar helgum degi
á Hausaskeljastað.

Í gegnum móðu og mistur
ég mikil undur sé.
Ég sé þig koma, Kristur,
með krossins þunga tré.
Af enni daggir drjúpa,
og dýrð úr augum skín.
Á klettinn vil ég krjúpa
og kyssa sporin þín.

Þín braut er þyrnum þakin,
hver þyrnir falskur koss.
Ég sé þig negldan nakinn
sem níðing upp á kross.
Ég sé þig hæddan hanga
á Hausaskeljastað. -
Þann lausnardaginn langa
var líf þitt fullkomnað.

Ég bíð, uns birtir yfir
og bjarminn roðar tind.
Hvert barn, hvert ljóð, sem lifir,
skal lúta krossins mynd.
Hann var og verður kysstur.
Hann vermir kalda sál.
Þitt líf og kvalir, Kristur,
er krossins þögla mál.

Þú ert hinn góði gestur
og guð á meðal vor, -
og sá er bróðir bestur,
sem blessar öll þín spor
og hvorki silfri safnar
né sverð í höndum ber,
en öllu illu hafnar
og aðeins fylgir þér.

Þú einn vilt alla styðja
og öllum sýna tryggð.
Þú einn vilt alla biðja
og öllum kenna dyggð.
Þú einn vilt alla hvíla
og öllum veita lið.
Þú einn vilt öllum skýla
og öllum gefa grið.

Að kofa og konungshöllum
þú kemur einn á ferð.
Þú grætur yfir öllum
og allra syndir berð.
Þú veist er veikir kalla
á vin að leiða sig.
Þú sérð og elskar alla,
þó allir svíki þig.

Ég fell að fótum þínum
og faðma lífsins tré.
Með innri augum mínum
ég undur mikil sé.
Þú stýrir vorsins veldi
og verndar hverja rós.
Frá þínum ástareldi
fá allir heimar ljós.

1 comment:

  1. Fallegur sálmur á sorglegum degi. Skemmtileg tilviljun að við sungum hann einmitt saman í gær í skírdagsmessu Laugardælakirkju - þar sem Bobby Fisher er jarðaður.

    ReplyDelete

Athugasemdir