Sunday, May 03, 2009

Sammála ósammála.is

Á osammala.is fer fram undirskriftasöfnun gegn aðild Íslands að ESB. Vefurinn er augljóslega settur upp til höfuðs vefnum sammala.is, þar sem undirskriftasöfnun andstæðs markmiðs fer fram. Rúmlega 14 þús. manns hafa skráð sig á sammala.is og rúmlega 4 þús. á osammala.is. Þess ber þó að geta að sammala.is var stofnaður 17. mars og hefur mikið verið auglýstur og kynntur en osammala.is var stofnaður 22. apríl og hefur ekkert verið auglýstur.

Meðal krafna sem osammala.is gerir er þessi hér:
Það er ennfremur skoðun okkar að ef til þess kæmi að sótt yrði um inngöngu í Evrópusambandið sé það eðlileg krafa að aukinn meirihluta kjósenda þurfi til þess að hún nái fram að ganga. Ekki sé ásættanlegt að slíkt hitamál yrði samþykkt einungis með naumum meirihluta.
Þessu er ég afskaplega sammála. Mér finnst ekki ásættanlegt að naumur meirihluti þjóðarinnar geti neytt nauman minnihluta inn í Evrópusambandið. Og ekki nóg með það að naumur minnihluti þeirrar þjóðar sem núna byggir landið yrði þannig neyddur þangað inn, heldur yrðu ókomnar kynslóðir neyddar þangað líka. Við megum ekki gleyma því að íslenska þjóðin tekur sífelldum breytingum. Hvaða rétt hefur helmingur þjóðarinnar sem byggir landið á einum tímapunkti til að taka ákvörðun, sem hlekkir ekki bara hinn helminginn heldur líka allar ókomnar kynslóðir höndum og fótum þungum hlekkjum Evrópusambandsins?

Ég óttast að ef sú þjóð sem núna byggir Ísland lætur tímabundna efnahagserfiðleika hrinda sér út í það að semja sig inn í Evrópusambandið - afsala til Brüssel því fullveldi sem forfeður okkar börðust fyrir um þarsíðustu aldamót - verði hún fordæmd fyrir sjálfselsku og eigingarni, hugleysi og aumingjaskap - jafnvel landráð - af komandi kynslóðum. Það er skammgóður vermir að pissa í skóinn sinn - ef þá leið á að fara finnst mér annað ótækt en að um það sé sammála þorri þjóðarinnar en ekki helmingur.


Á Frónsins feigðartákni
nú fjarskamikið ber.
Mér býður við því bákni
sem bandalagið er.

No comments:

Post a Comment

Athugasemdir