Á fimmtudaginn sl. sótti ég afar áhugavert málþing, þar sem rætt var um stjórnarskrá okkar Íslendinga og fyrirliggjandi frumvarp um breytingar á henni - einkum greinina sem lýtur að stjórnlagaþingi. Framsögumenn voru Gunnar Helgi Kristjánsson, stjórnmálafræðiprófessor, og Hafsteinn Þór Hauksson, skrifstofustjóri hjá Umboðsmanni Alþingis (Mag. jur. frá Oxford). Skúli Magnússon, ritari EFTA-dómstólsins (Mag. jur. frá Oxford), og Eiríkur Tómasson, lagaprófessor við HÍ, ljáðu umræðunni einnig máls.
Eiríkur var sá eini fjórmenninganna sem mælti með stjórnlagaþingi. Gunnar Helgi var nokkuð hlutlaus, en þeir Hafsteinn Þór og Skúli Magg lýstu andstöðu við það. Skúli gekk jafnvel svo langt að lýsa yfir vægast sagt alvarlegum áhyggjum af þessari hugmynd.
Framsöguræða Gunnars Helga var að mínum dómi ekki upp á marga fiska - mjög litríkt myndskreytt glærusýning sem hann notaði til stuðnings vakti ekki hrifningu mína. Hafsteinn Þór var öllu skárri og benti helst á að þeir tímar sem nú eru uppi væru e.t.v. ekki sem best fallnir til afdrifaríkra stjórnarskrárbreytinga. Einnig benti hann réttilega á þá fásinnu að kalla eftir nýrri stjórnarskrá vegna þess að hin núverandi sé svo gömul. Það er ekki galli stjórnarskrár að hún sé gömul - það er kostur! Með aldrinum festir stjórnarskráin rætur og þeim mun rótgrónari sem stjórnarskrá er, því meira réttaröryggi. Af nýrri stjórnarskrá leiðir óhjákvæmilega réttaróvissa, enda engin fordæmi fyrir beitingu hennar. Á slíkri réttaróvissu er ekki þörf um þessar mundir.
Á eftir Hafsteini sté Skúli í pontu og hélt þrumuræðu. Sagðist hann meðal annars mótfallinn hugmyndum um stjórnlagaþing vegna tilefnis þeirra. Tilefnið er bankakreppa - efnahagshrun - en ekki stjórnlagakreppa. Reyndin sé sú að stjórnskipunin svínvirki (eins og hafi berlega komið í ljós síðustu vikur og mánuði) en sé ekki handónýt eins og sumir vilja vera að láta. Að ana út í e-ð í líkingu við stjórnlagaþing undir þessum formerkjum sé hégómi. Skúli þuldi fleiri rök gegn stjórnlagaþingshugmyndinni.
Næstur steig á stokk Eiríkur Tómasson og sagði Skúla hafa sagt að stjórnarskrárbreytingar væru hégómi. Það þótti mér kjánalegt af Eiríki, enda alls ekki það sem Skúli sagði í raun. Skúli leiðrétti þetta sjálfur að lokinni ræðu Eiríks. Eiríkur sagðist telja stjórnlagaþing rétta leið til betrumbóta gallaðrar stjórnarskrár.
Mikið hefur verið rætt um hvernig fulltrúar hugsanlegs stjórnlagaþings skyldu valdir. Meðal annars hefur þeirri hugmynd verið fleygt fram (t.d. af ágætum samnemanda mínum) að velja af handahófi u.þ.b. 50 einstaklinga úr þjóðskrá til samningar nýrrar stjórnarskrár. Þetta er líklega það fáránlegasta sem ég hef heyrt. Ég bendi fylgjendum þessarar hugdettu á að sá, sem vill fara þessa leið, er í sama mund að segja að honum sé nákvæmlega sama hver semur stjórnarskrá landsins. Og þar af leiðandi væntanlega líka að honum sé nákvæmlega sama hvað stendur í henni, eða hvað?
Monday, March 16, 2009
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment
Athugasemdir