Monday, December 18, 2006

Jólaprófaljóð

Þá eru síðustu jólaprófin mín í MR afstaðin. Siðasta jólafrí mitt sem MR-ings er hafið. Síðasti 18. desemberinn minn verandi MR-ingur er upprunninn og síðasta stund mín í skammdegisþunglyndi á Landsbókasafninu sem MR-ingur er liðin. Ég veit ekki hvort ég á að hlæja eða gráta.

Hvað sem þessu líður þá hélt ég áfram með jólaprófaljóðabálkinn minn þessi jólapróf, og bættust tvö erindi við þau fjögur sem ort voru fyrir ári síðan. Til upprifjunar skulum við byrja á að rifja upp jólaprófaljóðin 2005:

Neminn skelfur, nálgast próf.
Nú er vandi á höndum
Sjúkur hiti, svitakóf.
Senn fer allt úr böndum.

Valda próf og vanlíðan,
verst eru íslensk fræði.
Lítið er ei lagt á mann,
logandi brjálæði.

Bækur sem mér býður við
berst ég við að skilja.
Hvorki á flug ég kemst, né skrið.
Kappann skortir vilja.

Sársauka í brjósti ber,
berst ég fyrir næði.
Langtum meir þó leiðist mér
Lífræn efnafræði.

Eftirfarandi erindi varð til í stærðfræðiprófinu fyrir nákvæmlega viku síðan. Vísan er þó að vissu leyti öfugmæld því mér hefur oft gengið verr á stærðfræðiprófi.
Að vera góður í einhverju' er fínt,
ég kann Adidas-merki að teikna.
En stærðfræðin stendur á sér og telst sýnt
að sjálfur ég kann ekki' að reikna.

Þessi kom meðan lært var fyrir sögupróf á bókhlöðunni. Við höndina var ákveðinn drykkur sem innihélt koffín, gurana-þykkni og gingsen.
Próflestur er strembið starf
sem Steindór þarf að drýgja.
Koffíndrykki þamba þarf,
þreytu til að flýja.

Sunday, November 05, 2006

Endalaust stuð og fjör

Í dag eru 156 dagar síðan ég bloggaði síðast. Svo skemmtilega vill til að þriðja rót þessarar tölu er klukkutímafjöldi þess svefns sem ég sé fram á að sofa næstu þrjá dagana.

Þessa dagana er er allt brjálað að gera hjá mér og þegar sú er raunin er mikilvægt að forgangsraða hlutunum. Það kemur oftar en ekki í hlut þess mikla tímaþjófs sem svefninn er að sitja á hakanum enda engin ástæða til að eyða tíma í þannig tilgangslitla vitleysu þegar maður getur verið að semja fyrirlestur um ævi og skáldskap Jónasar Hallgrímssonar eða að lesa latneskar líffræðibækur um blóm.

Á morgun mun ég, ásamt Fúsa, halda fyrirlestur um Jónas Hallgrímsson, hvern markmiðið er að klára fyrir kl. 10.20 í fyrramálið. Svefnleysið í nótt mun orsaka gífurlega þreytu á morgun, þegar yfirvofandi verður líffræðipróf þriðjudagsins. Í ofanálag er borðtennisæfing annað kvöld sem er jú algjörlega óafmissandi eins og gefur að skilja. Að öllum líkindum mun því næsta nótt verða jafnsvefnlítil og þessi, sem mun væntanlega skila sér í gígantískri þreytu minni á þriðjudaginn. Þá þýðir þó ekkert að láta deigan síga! Á miðvikudaginn eru nefnilega á dagskrá tveir fyrirlestrar, sem mér er gert að halda! Á hvorugum þeirra er ég byrjaður og kvíði mikið fyrir. Ekki nóg með þetta, heldur þarf ég einnig að mæta á tveggja klukkustunda hraðlestrarnámskeið á þriðjudaginn. Nú hugsið þið sem nenntuð að lesa alla leið hingað e.t.v. með ykkur: Vá, fær aumingja Steindór þá ekkert að sofa fyrr en eftir skóla á miðvikudaginn? Svarið er nei - ég fæ ekki að sofa á miðvikudaginn! Tíminn milli kl. 15 og 20 á miðvikudaginn er nefnilega undirlagður í tónlistarnám! Fyrir þessa tónlistartíma þarf ég einmitt líka að æfa mig eins mikið og fræðilega er mögulegt næstu daga og það sama gildir um hraðlestrarnámskeiðið.

Persónulegt heimsmet í svefnleysi er sökum framanritaðs óumflýjanlegt.

Munið þið eftir barnatímanum um Bernharð sem átti klukku sem hann gat stoppað tímann með? Mig langar ógeðslega mikið í þannig.

Saturday, June 03, 2006

Á Skagaströnd er gott að djamma og djúsa...

Skagaströnd, laugardaginn 3. júní 2006 kl. 18:56

Í dag, klukkan hálftvö, kom sumarið. Veður skipuðust skjótt í lofti og sólin reif skýin utan af sér með tilþrifum. Svo kom Guð og tók fyrstu skóflustunguna að sumrinu 2006. Núna sit ég uppi í rúmi á hótelherberginu mínu hér á Skagaströnd og sólin skín glatt inn um gluggann og brennir á mér hálsinn.

Ástæða Skagastrandardvalar minnar er hvorki einstök ævintýraþrá mín né almennur áhugi á lífi og menningu Skagstrendinga, heldur vinnan. Vitar landsins þarfnast viðhalds nú sem áður og því erum við í vitaflokknum farnir á stjá. Vitinn sem við erum að vinna í þessa stundina heitir Kálfshamarsvíkurviti og er í Kálfshamarsvík, sem er að finna þrjátíu kílómetra norður af Skagaströnd. Brjálað fjör. Næst er förinni heitið til Raufarhafnar, Þórshafnar og Kópaskers. Ztuðið hefur engin takmörk.

nú er verið að kalla á mig að spila kana, en ég bæti við þessa færslu í kvöld (ef ég nenni)

Tuesday, March 21, 2006

Jóna I. Hansen 1935-2006

Klukkan þrjú í dag var jarðsungin frá Neskirkju Jóna Ingibjörg Hansen, fyrrverandi dönskukennari við Hagaskóla. Af þeim störfum lét hún árið 2002, en veturinn 2000-2001 kenndu hún mér, auk allra minna Hagaskólavina, dönsku.

Leit er að jafngöfugri, óeigingjarnri og á allan hátt yndislegri manneskju og þeirri sem Jóna var. Ekki kunnu allir jafnvel við hana sem kennara, enda fólk misjafnlega vel úr garði gert. Prúðmennin ég, Þórir og Hilmar höfðum hana þó í miklum metum, enda létum við okkur ekki vanta við útförina í dag og sátum meðal hundruða annarra til að votta kennaranum okkar fyrrverandi virðingu okkar.

Athöfnin var látlaus en falleg; sungnir voru fimm sálmar og Séra Frank M. Halldórsson hélt langa tölu og fór fögrum orðum um Jónu. Hann gekk jafnvel svo langt að segja lítinn brandara um stjórnsemi Jónu og eitt andartak ómaði ljúfur hlátur blítt um kirkjuna. Að útför lokinni heyrðist að vísu minnst á að skemmtilegt hefði verið að brjóta örlítið upp á hið venjubundna útfararsnið þar sem Jóna var jú engin venjuleg kona. Þeir sem á þetta minntust voru þó alls ekki að kvarta, enda athöfnin ekkert til að kvarta yfir heldur var vel að henni staðið.

Í ræðu sinni líkti Séra Frank Jónu við góða hirðinn úr Biblíunni, sem þekkti í sundur hvern einasta sauðanna sem hann gætti og þekkti nafn hvers og eins þeirra. Þá var mér hugsað til þess þegar Jóna ávarpaði mig með fullu nafni á göngum Hagaskóla eftir að hafa aðeins kennt mér eina kennslustund! Merkilegt þótti mér.

Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að kynnast Jónu og mun seint, ef þá nokkurn tíma, gleyma henni. Blessuð sé minning hennar og megi hún hvíla í friði.

Monday, February 13, 2006

nalsræfggolb agufÖ

.lieh ðifiL
.gim ðiv rapaksdnajf lit mullö rukky ýns gé ne ruðá igninúnsgufö musseþ ruttæh gé re úN
.ííV .rukiel dnabrevocaltíB tksroN .gadutmmif á murmöhlluG í dlöllug és mus ruðrev ðaÞ .nidlölluG :ðamet ðem iraðalg ðirev ierdla gé feh go gad í raðapújhfa urov arallajkusöC ragnityerkS .gadutmmif á re ranniraðítmarF ðítáhsrÁ
.krevðóg treg gé iðfah adne ,lev rém ðiel mieh anah treyk afah ða ritfE .mukköþ ðem iðáþ núh mes ,raf inneh ðuab go nnilíb gé iðappots ívÞ .ðiel ním go mes ,nniðröjfajrekS í igæl ranneh ðiel ða mu ssiv gé tsittóþ gad í rryf ótærts í anah ðés idnafaH .innutögruðuS ritfe idnagnag uklúts agnu ás go ,gad í itpyek gé mes ,muním munlíb ajýn á retsE árf mieh inniðiel á rav gÉ .naðá krevðóg iðreg gÉ
.ðaþ mu ðavH .(réþ adnymí ða tsrav ,irrep iltil ,úþ go snie agot mugelsiðrefnyk fa ikke re núh ða marf ðiket óþ laks) ppu ikke gé feg anuðætsÁ .iggugufö itsrev go gufönfaj re alsræfgglob isseþ angev srevh infetlevriryf mujrevhnie arev ða nnak ðaÞ
.imieh í ulsræfggolb utsugufö í nimokleV

Sunday, February 05, 2006

Saumspretta á rassinum

Ég sit inni í herbergi og hlusta á Bubba. Voljúmið á dönsku græjunum sem ég keypti mér fyrir hálfu öðru ári er í 20 af 32 mögulegum. Hann syngur um að gott sé "að elska konu eins og þig" og segir að ef til sé líf eftir þetta líf muni hann elska þessa konu líka þar. Ég vona hans vegna að þetta líf sé hans síðasta.

Í gærkvöldi tapaði ég fyrir Ester í billiard. Og það ekki í fyrsta skipti! Við skelltum okkur fjögur á billiardbarinn Faxafeni í gær; Ég, Ester, Hilmar og Jón Reynir og Ester vann okkur alla!
Unbelievable? Bílív it!

Þetta verður ekki mikið lengra, þarf að lesa meiri stærðfræði. Ætla þó að lofa þér, Rebekka, að biðin í næstu færslu verður ekki jafnlöng.

Að lokum vil ég segja ykkur frá því að það er komið gat á rassinn á nýju jakkafatabuxunum mínum.

Sunday, January 22, 2006

Til Áslaugar

Áslaug, kommentaðu.

..takk

Friday, January 13, 2006

Föstudagurinn þrettándi

Í dag er föstudagurinn þrettándi janúar, sem þýðir að í dag er enginn heppinn. Nema Þórir af því hann á afmæli. Til hamingju, kallinn minn.

Ég hef ekki lent í neinum hremmingum það sem af er dagsins, heldur hefur hann þvert á móti verið hin ágætasta skemmtun. Ég fékk til dæmis að horfa á Darra Kristmunds hlaupa tvo hringi í kringum Reykjavíkurtjörn á karlmannsþveng (eða G-streng) einum fata. Fyrir það greiddi ég 510 af þeim rúmu tuttuguþúsund krónum sem Darri safnaði með þessu uppátæki sínu til styrktar fórnarlömbum Pakistanjarðskjálftans í fyrra.

Annað frábærlega skemmtanamikið atvik varð þegar ég bætti hið óbætanlega met mitt í Snake í símanum mínum í dag. Gamla metið var 4956 stig, en hið nýja er hvorki meira né minna en 5461 stig. Geri aðrir betur. Fyrir snake-áhugamenn má geta þess að mér tókst að klára fyrsta heiminn í Snake-campaign auk þess að ná þrettán eplum í síðasta borðinu í öðrum heimi. Hefði ég semsagt náð sjö eplum í viðbót hefði ég líklega komist í þriðja heim, en svo langt hefur engum tekist að fleyta orminum.

Jæja, gott í bili.

Og hei, ég á afmæli á mánudaginn. Allir að muna að knúsa mig og helst gefa mér pakka.

Tuesday, January 03, 2006

Viðsnúningur sólarhringsins

Á morgun hættir lúxusinn og venjulegheitin byrja aftur. Vakna klukkan átta ei emm og skólast til þrjú pí emm. Síðustu tvær vikurnar eða svo hefur allt annað verið uppi á teningnum eins og skólafólk þekkir.

Alveg síðan ég man eftir mér hefur skólinn byrjað aftur eftir jólafrí þann 4. janúar svo fremi það hefur verið virkur dagur. Þetta árið er 4. janúar rosalega virkur dagur - miðvikudagur! Þeir gerast vart virkari. Biggi frændi á afmæli 4. janúar. Greyið.

Þetta jólafrí var í heildina bara ágætt held ég. Það einkenndist af leti. Ég las þó heila bók í jólafríinu, það hefur ekki gerst lengi. Okkur var skipað að lesa bók fyrir íslenskuritgerð í jólafríinu og ég las Vetrarborgina eftir Arnald Indriðason, sem Danni frændi (ath. rauðhærður) lánaði mér. Hún sökkaði. Ester var að lesa Harry Potter og skemmta sér konunglega á meðan ég staulaðist í gegnum óspennandi og leiðinlega Vetrarborg Arnaldar sjáandi eftir því að hafa ekki heldur valið Harry.
Annað sem við gerðum í jólafríinu var að horfa á Friends. Ég er óðum að koma mér inn í Friendsmenninguna, en nú er ég búinn að sjá þrjár fyrstu seríurnar þátt fyrir þátt auk fimm sjöttuhlutum af fjórðu seríu, hvorki meira né minna.

Gaman gaman, gott í bili.