Tuesday, April 28, 2009

Öndverðir meiðar

Þegar kemur að Evrópumálum hlýtur fólk í megindráttum að skiptast í þrjár fylkingar. Í fyrsta lagi fólk sem er hlynnt aðildarumsókn Íslands að ESB, í öðru lagi fólk sem er henni andvígt og í þriðja lagi fólk sem er alveg sama.

Margir hafa sterkar skoðanir á þessu máli og ég held að fæstir falli í þriðja flokkinn. Jafnvel má ætla að fyrir mörgum sé þetta nógu stórt mál til þess að stefnur flokkanna hvað það varðar hafi skipt sköpum um hvar atkvæði þeirra lenti í nýafstöðnum kosningum.

Fyrir kosningarnar má segja að aðeins hafi tveir flokkar tekið einarða afstöðu með eða á móti aðildarviðræðum við ESB. Það voru einmitt þeir flokkar sem mynduðu 80-daga minnihlutastjórnina, sem þar skipuðu sér á fullkomlega öndverða meiða. Þrátt fyrir að hafa þverandsnúnar skoðanir á þessu mest áberandi kosningamáli sameinast þeir nú um að mynda saman ríkisstjórn og hafa, að því er virðist, þegar leyst úr þessum ágreiningi þannig að Vinstrigrænir gefi Samfylkingunni lausan taum í Evrópumálum en fái í staðinn stóreflt umhverfisráðuneyti til eigin afnota.

Nú spyr ég: Er of langsótt að leggja saman tvo og tvo og komast að þeirri niðurstöðu að þessi atburðarás sé öll sömul fyrir fram ákveðin? Getur verið að flokkarnir hafi tekið sameiginlega ákvörðun snemma í kosningabaráttunni um að skipa sér öfgafullt hvor til sinnar áttarinnar í afstöðunni með og gegn ESB-aðild í von um að tryggja sér atkvæði allra sem hafa sterkar skoðanir á málinu, hvort sem þeir eru andvígir aðild eða fylgjandi?

Bjarni Harðarson, fullveldissinni og bóksali á Selfossi, ritaði grein í Morgunblaðið skömmu fyrir kosningar þar sem hann upplýsti að hann greiddi VG sitt atkvæði vegna Evrópuafstöðu þeirra. Eflaust hafa margir tekið þann sama pól í hæðina. Hvað fær þetta fólk nú fyrir það atkvæði sem það greiddi gegn ESB-aðild? Aukin umsvif umhverfisráðuneytisins? Skyldi það taka því sem ásættanlegri sárabót fyrir uppgjöf VG í Evrópumálum og enga baráttu gegn aðildarviðræðum?

1 comment:

  1. Já, þarna er ég sammála þér! Finnst leiðinlegt að vita að mitt atkvæði til VG sé að fara í evrópusambandsaðild! En svo er spurning.. ef að VG taka ekki evrópupólinn hvort að Samfylkingin hendi þeim ekki bara út úr ríkistjórn og taki Borgarahreyfingu og Framsókn með sér í evrópusambandsríkistjórn?!
    Þetta er flókin staða sem maður sér samt því miður endann á - að VG gefi sig og Ísland fari í ESB - vonum bara að maður hafi rangt fyrir sér.

    ReplyDelete

Athugasemdir