Tuesday, March 31, 2009

Í besta falli hálfur

Við Halla áttum eins og hálfs árs afmæli um daginn og í tilefninu gaf Halla mér glæsilegt bókamerki sem hún saumaði sjálf (með ofurfíngerðu, ísaumuðu píanóborði) og frábæra bók um ævi Jónasar Hallgrímssonar eftir Böðvar Guðmundsson. Sennilega hefði mér ekki dottið sjálfum í hug að kaupa þessa bók (hvað þá að sauma mér bókamerki) en eigi að síður er ég yfir mig ánægður með hvort tveggja og gæti hreinlega ekki án þessa verið. Bókin er stutt og hnitmiðuð og fullkomin fyrir þá sem vilja fræðast betur um eitthvað jafnáhugavert og ævi Jónasar Hallgrímssonar án þess að nenna að hafa of mikið fyrir því, t.d. með lestri umfangsmikillar ævisögu. Þetta er dæmi um framkvæmd minimal-maximal-prinzipsins og gengur út á að ná hámarksárangri með lágmarksfyrirhöfn. Það kenndi pabbi mér fyrir löngu síðan og hefur nýst afbragðsvel, t.d. í námi.

Til Höllu:

Þú þekkir betur mig og mín
mál en ég geri sjálfur.
Vegna þessa varla án þín
ég væri nema hálfur.

Tuesday, March 17, 2009

Til eru hús -

Til eru hús, sem hlutu þennan dóm:
að hafna á köldu landi og standa tóm.
Eins eru menn sem munu fá að þjást,
því máttarstólpinn - vinnan þeirra - brást.
Og valdhafar, sem vitið hafa misst,
og verðtryggð lán, sem enginn getur fryst.
Og hlutabréf, sem ekkert fyrir fæst -
og framavon, sem aldrei getur ræst.

Til eru lönd, sem liggja í heimsins flór,
og lítil þjóð, sem aldrei verður stór.

Monday, March 16, 2009

Stjórnlagaþing?

Á fimmtudaginn sl. sótti ég afar áhugavert málþing, þar sem rætt var um stjórnarskrá okkar Íslendinga og fyrirliggjandi frumvarp um breytingar á henni - einkum greinina sem lýtur að stjórnlagaþingi. Framsögumenn voru Gunnar Helgi Kristjánsson, stjórnmálafræðiprófessor, og Hafsteinn Þór Hauksson, skrifstofustjóri hjá Umboðsmanni Alþingis (Mag. jur. frá Oxford). Skúli Magnússon, ritari EFTA-dómstólsins (Mag. jur. frá Oxford), og Eiríkur Tómasson, lagaprófessor við HÍ, ljáðu umræðunni einnig máls.

Eiríkur var sá eini fjórmenninganna sem mælti með stjórnlagaþingi. Gunnar Helgi var nokkuð hlutlaus, en þeir Hafsteinn Þór og Skúli Magg lýstu andstöðu við það. Skúli gekk jafnvel svo langt að lýsa yfir vægast sagt alvarlegum áhyggjum af þessari hugmynd.

Framsöguræða Gunnars Helga var að mínum dómi ekki upp á marga fiska - mjög litríkt myndskreytt glærusýning sem hann notaði til stuðnings vakti ekki hrifningu mína. Hafsteinn Þór var öllu skárri og benti helst á að þeir tímar sem nú eru uppi væru e.t.v. ekki sem best fallnir til afdrifaríkra stjórnarskrárbreytinga. Einnig benti hann réttilega á þá fásinnu að kalla eftir nýrri stjórnarskrá vegna þess að hin núverandi sé svo gömul. Það er ekki galli stjórnarskrár að hún sé gömul - það er kostur! Með aldrinum festir stjórnarskráin rætur og þeim mun rótgrónari sem stjórnarskrá er, því meira réttaröryggi. Af nýrri stjórnarskrá leiðir óhjákvæmilega réttaróvissa, enda engin fordæmi fyrir beitingu hennar. Á slíkri réttaróvissu er ekki þörf um þessar mundir.

Á eftir Hafsteini sté Skúli í pontu og hélt þrumuræðu. Sagðist hann meðal annars mótfallinn hugmyndum um stjórnlagaþing vegna tilefnis þeirra. Tilefnið er bankakreppa - efnahagshrun - en ekki stjórnlagakreppa. Reyndin sé sú að stjórnskipunin svínvirki (eins og hafi berlega komið í ljós síðustu vikur og mánuði) en sé ekki handónýt eins og sumir vilja vera að láta. Að ana út í e-ð í líkingu við stjórnlagaþing undir þessum formerkjum sé hégómi. Skúli þuldi fleiri rök gegn stjórnlagaþingshugmyndinni.

Næstur steig á stokk Eiríkur Tómasson og sagði Skúla hafa sagt að stjórnarskrárbreytingar væru hégómi. Það þótti mér kjánalegt af Eiríki, enda alls ekki það sem Skúli sagði í raun. Skúli leiðrétti þetta sjálfur að lokinni ræðu Eiríks. Eiríkur sagðist telja stjórnlagaþing rétta leið til betrumbóta gallaðrar stjórnarskrár.

Mikið hefur verið rætt um hvernig fulltrúar hugsanlegs stjórnlagaþings skyldu valdir. Meðal annars hefur þeirri hugmynd verið fleygt fram (t.d. af ágætum samnemanda mínum) að velja af handahófi u.þ.b. 50 einstaklinga úr þjóðskrá til samningar nýrrar stjórnarskrár. Þetta er líklega það fáránlegasta sem ég hef heyrt. Ég bendi fylgjendum þessarar hugdettu á að sá, sem vill fara þessa leið, er í sama mund að segja að honum sé nákvæmlega sama hver semur stjórnarskrá landsins. Og þar af leiðandi væntanlega líka að honum sé nákvæmlega sama hvað stendur í henni, eða hvað?

Sunday, March 08, 2009

Jórunni í 2. sæti

Jórunn Ósk Frímannsdóttir Jensen, frænka mín með meiru, sækist eftir 2. sætinu á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi í prófkjörinu næstu helgi.

Inn á Alþingi finnst mér Jórunn eiga gott erindi. Krafan um endurnýjun mannskapar á Alþingi er hávær og ekki að ástæðulausu. Er enda fullt af nýjum andlitum í framboði og ekki laust við að maður óttist það að Alþingishúsið fyllist af nýgræðingum, sem ekki kunna til verks á sviði stjórnmála og munu reika um húsið í reiðu- og eirðarleysi, grunlausir um hvað til bragðs skuli taka.

Jórunn hefur, að mínu mati, akkúrat hæfilega reynslu af stjórnmálum. Næga reynslu til að vita um hvað málin snúast og til að kunna til verks á þessu sviði, án þess þó að hinn ferski eldmóður og kraftur sé farinn að þverra. Þaðan af síður verður henni kennt um hvernig fyrir Íslandi er komið. Stefnumál Jórunnar má kynna sér á jorunn.is.

Ég hvet alla flokksbundna Sjálfstæðismenn í Reykjavík til að setja tölustafinn 2 framan við nafn Jórunnar í prófkjörinu næstu helgi, 13.-14. mars.

Monday, March 02, 2009

Ósammála Sigurði Líndal

Það gerist ekki oft að fólk treysti sér til að vera ósammála Sigurði Líndal þegar kemur að lögfræði. Það gerðist þó eitt sinn í tíma sem ég sat hjá prófessor Róbert R. Spanó í almennri lögfræði að Róbert sagðist ósammála túlkun Sigurðar Líndal á ákveðnum dómi Hæstaréttar. Hélt Róbert í kjölfarið langa tölu um að þegar menn væru ósammála Sigurði um hvaðeina lögfræðilegt tækju þeir mikla áhættu. Sagðist hann sjálfur sjaldan treysta sér til þvílíks og þá aðeins að mjög vel ígrunduðu máli. Síðan rökstuddi Róbert í þaula hvernig og af hverju hann var ósammála Sigurði.
Þess má geta að Róbert hefur auk embættisprófs í lögfræði frá HÍ meistaragráðu á sviði ríkisréttar með ágætiseinkunn frá Oxford, þaðan sem hann hlaut verðlaun fyrir afburðanámsárangur.

Í fréttum RÚV sl. föstudag gerðist sá fátíði atburður aftur, að einhver taldi sig bæran til að vera ósammála Sigurði Líndal um lögfræðilegt álitaefni. Þarna var á ferð Jóhanna Sigurðardóttir, sem sagðist ósammála þeirri túlkun Sigurðar að það sé stjórnarskrárbrot að setja Norðmann í íslenskt embætti. Í 2. mgr. 20. gr. stjórnarskrárinnar segir að engan megi skipa embættismann nema hann hafi íslenskan ríkisborgararétt. Sigurður telur í þessu felast að á sama hátt megi engan setja embættismann, en slíkt er eðlileg túlkun þegar litið er til markmiðs ákvæðisins (að Íslendingar, en ekki útlendingar taki afdrifaríkar ákvarðanir fyrir Ísland). Jóhanna sagði reyndar að girt hefði verið fyrir þetta, með seðlabankalögunum sem gengu í gildi í lok síðustu viku. Hún virðist sem sagt einnig ósammála því að stjórnarskráin sé æðri almennum lögum frá Alþingi. Þegar fréttamaður spurði hana hvernig hennar lög gætu verið æðri stjórnarskrá svaraði hún: ,,Það sem er grundvallaratriði er að við erum hér að skipa toppmann í þessa stöðu."
Þess má geta að Jóhanna hefur verslunarpróf frá Verslunarskóla Íslands.

Hér má sjá skemmtilega kenningu Mána Atlasonar um það hví Jóhanna er óbundin stjórnarskrá.