Saturday, January 03, 2009

Áramótaskaupið

Gleðilegt ár. 2008 var vissulega skítt, en þetta getur þó ekki orðið verra.

Að heljarbáli vonin varð,
að vonbrigðum varð óskin blíð.
Árið, sem nú gekk í garð
gefi okkur betri tíð
með blóm í haga og birtu og yl
svo batni mein og græði sár.
Víst er ljúft að vera til -
velkomið sé hið nýja ár.


Árið 2008 endaði á sama hátt og öll önnur ár í seinni tíð - með Áramótaskaupinu. Að venju safnaðist allt of stór fjölskyldan saman í allt of lítinn sófa og glápti saman á Skaupið í allt of litlu sjónvarpstæki, sem var allt of langt í burtu og heyrðist allt of lítið í. Allir náðu þó boðskapnum að lokum. Mér heyrist á flestum að þeim hafi þótt Skaupið gott. Þessu er ég ósammála - mér fannst það lélegt. Vissulega hafði það sína ljósu punkta, eins og t.d. Jón Gnarr og biskupssoninn Góa, sem stóð sig afbragðsvel (einkum í gervi Dags B). En í heildina þótti mér þetta lélegt, enda var fallið í þá gryfju sem ég hafði búist við - a.m.k. 9 af hverjum 10 bröndurum fjölluðu um kreppuna. Að mínu viti hefði átt að sleppa kreppubröndurum með öllu og koma fólki þannig skemmtilega á óvart. En nei, það var víst ekki hægt, höldum bara áfram að mjólka og tyggja þetta kreppufár ofan í landsmenn þangað til þeir æla. Í staðinn var ákveðið að sleppa alveg hlutum eins og vörubílafárinu og Sturlu Jónssyni (sem er náttúrulega sér brandari út af fyrir sig). Ég hafði hlakkað mikið til að sjá hann tekinn fyrir. Svo fannst mér Davíð Oddsson afskaplega illa túlkaður og leikinn af kolvitlausum manni. Og textarnir í lögunum voru illa ortir og slæmir.

Bis bald. Adios.

No comments:

Post a Comment

Athugasemdir