Tuesday, March 21, 2006

Jóna I. Hansen 1935-2006

Klukkan þrjú í dag var jarðsungin frá Neskirkju Jóna Ingibjörg Hansen, fyrrverandi dönskukennari við Hagaskóla. Af þeim störfum lét hún árið 2002, en veturinn 2000-2001 kenndu hún mér, auk allra minna Hagaskólavina, dönsku.

Leit er að jafngöfugri, óeigingjarnri og á allan hátt yndislegri manneskju og þeirri sem Jóna var. Ekki kunnu allir jafnvel við hana sem kennara, enda fólk misjafnlega vel úr garði gert. Prúðmennin ég, Þórir og Hilmar höfðum hana þó í miklum metum, enda létum við okkur ekki vanta við útförina í dag og sátum meðal hundruða annarra til að votta kennaranum okkar fyrrverandi virðingu okkar.

Athöfnin var látlaus en falleg; sungnir voru fimm sálmar og Séra Frank M. Halldórsson hélt langa tölu og fór fögrum orðum um Jónu. Hann gekk jafnvel svo langt að segja lítinn brandara um stjórnsemi Jónu og eitt andartak ómaði ljúfur hlátur blítt um kirkjuna. Að útför lokinni heyrðist að vísu minnst á að skemmtilegt hefði verið að brjóta örlítið upp á hið venjubundna útfararsnið þar sem Jóna var jú engin venjuleg kona. Þeir sem á þetta minntust voru þó alls ekki að kvarta, enda athöfnin ekkert til að kvarta yfir heldur var vel að henni staðið.

Í ræðu sinni líkti Séra Frank Jónu við góða hirðinn úr Biblíunni, sem þekkti í sundur hvern einasta sauðanna sem hann gætti og þekkti nafn hvers og eins þeirra. Þá var mér hugsað til þess þegar Jóna ávarpaði mig með fullu nafni á göngum Hagaskóla eftir að hafa aðeins kennt mér eina kennslustund! Merkilegt þótti mér.

Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að kynnast Jónu og mun seint, ef þá nokkurn tíma, gleyma henni. Blessuð sé minning hennar og megi hún hvíla í friði.