Sunday, January 18, 2009

Skrítlur frá 1935

Eitt af því sem ég gerði mér til dundurs þegar ég átti að vera að læra fyrir sjúkrapróf fyrir skemmstu var að glugga í gömul tímarit sem ég fann á bókasafninu á Selfossi. Þetta voru árgangar 1935-6 af Nýjum kvöldvökum og innihéldu margt athyglisvert, eins og t.d. spádóm virts, bandarísks doktors í efnafræði um það hvernig lífið yrði að hundrað árum liðnum (árið 2035) og grein um niðurstöður nýjustu rannsókna danskra vísindamanna á eðli svefnsins. Á víð og dreif um ritið var svo aragrúi skrítlna, sem vöktu svo mikla kátínu hjá mér að ég fór nokkrum dögum síðar aftur á bókasafnið og ritaði margar af þeim niður. Hér er smásýnishorn af skrítlum frá 1935:


Hann hafði beðið sér stúlku en hún hafði neitað honum.

– O-jæja, sagði hann harmi lostinn, ég býst ekki framar við að ég giftist.

Hrósið, sem í þessu fólst, fór ekki fram hjá stúlkunni og hún sagði brosandi: – Ó, heimskinginn minn, heldurðu að engin stúlka vilji þig þó að ég hryggbryti þig?

– Auðvitað, sagði hann og brosti um leið, – hver heldurðu að vilji mig úr því að þú vildir mig ekki?

---

Fyrirsögn í erlendu blaði: Konan, sem barin var á dögunum af eiginmanni sínum er nú sögð miklu betri.

---

Hann: Ég er svo glaður að ég gæti kysst allt og alla.

Hún: Ertu vitlaus? Nú erum við trúlfuð, og því verður þú að leggja niður öll æskupör þín.

---

Nemandi: Fyrirgefið, herra prófessor, hvað er það, sem þér hafið skrifað hérna á spássíuna á ritgerð minni? Ég get ekki lesið það.

Prófessorinn: Ég skrifaði, að þér ættuð að skrifa læsilegar.

---

Frúin við lækninn: Ég er hrædd um, að maðurinn minn sé ekki með öllum mjalla. Stundum tala ég við hann næstum stanzlaust í heilan klukkutíma, en það er eins og hann heyri ekki eitt einasta orð.

Læknirinn: Þetta eru engin veikindi. Þetta er aðeins hæfileiki hjá manninum yðar.




Skrítlurnar eru teknar orðrétt upp úr Nýjum kvöldvökum, árgangi 1935, útgefnum af Þorsteini M. Jónssyni á Akureyri.

No comments:

Post a Comment

Athugasemdir