Wednesday, December 21, 2005

Jólainnkaup

Jæja, komiði sæl og velkomin í aðra bloggfærslu nýja bloggsins míns.

Þá er prófaþunglyndið afstaðið og við tekur jólagleðin! Öllu skemmtilegri tími að mínu mati, því jólafríið elska ég jafnmikið og ég hata jólaprófin.

Prófin gengu í heildina heldur illa. Ég fékk tvær góðar einkunnir, í leikfimi og þýsku, en restin var frekar slöpp. Meðalið endaði í 6,7 ... afskaplega ómerkileg meðaleinkunn. Ég vil skjóta inn þökkum til hans Begga, sem kenndi okkur stærðfræði í þriðja bekk, en hann kíkti með mér yfir þetta daginn fyrir prófið og bætti þar með nokkrum heilum við einkunnina mína.

En nú er sum sé jólastússið byrjað og við Þórir og Hilmar kíktum í dag niður í bæ og framkvæmdum jólagjafainnkaup. Fuku þar nokkrir þúsundkallar út í veður og vind, en þeim er svo sem ágætlega varið (vona ég). Ég er búinn að redda jólagjöfun handa Esterinni minni og litlu bræðrum mínum, en vantar enn pakka handa mömmu og pabba. Fixum það á morgun.

Ég hef það á tilfinningunni að þetta sé einkar ómerkileg og leiðinleg bloggfærsla. Henni er hér með lokið. Biðst afsökunar.

Takk fyrir mig.

Sunday, December 11, 2005

Prófaþunglyndi

Velkomin í fyrstu bloggfærslu nýja bloggsins míns.

Þessi bloggfærsla verður ekki löng þar sem ég er í prófum. Mér hefur ekki gengið vel til þessa frekar en fyrri daginn og því hef ég sokkið sjálfum mér í þunglyndi sem ég kýs að kalla prófaþunglyndi. Fimmtudaginn 15. desember næstkomandi lýkur þessum leiðindum og mun ég þá hefja þetta nýja blogg með formlegum hætti.

Hlakkið til


Þetta er það sem ég hef verið að gera við tímann sem ég hefði betur nýtt til próflesturs hingað til:

Neminn skelfur, nálgast próf.
Nú er vandi á höndum
Sjúkur hiti, svitakóf.
Senn fer allt úr böndum.

Valda próf og vanlíðan,
verst eru íslensk fræði.
Lítið er ei lagt á mann,
logandi brjálæði.

Bækur sem mér býður við
berst ég við að skilja.
Kemst ég hvorki á flug né skrið.
Kappann skortir vilja.

Sársauka í brjósti ber,
berst ég fyrir næði.
Langtum meir þó leiðist mér
Lífræn efnafræði.