Ég hef séð Ísland gera jafntefli við heimsmeistara í fótbolta á Laugardalsvelli, ég hef séð handboltalandsliðið tryggja sér sæti á stórmótum með marki á lokasekúndunum, ég hef séð skólann minn hampa mörgum sigrum í milliskólakeppnum og ég hef séð ömmu mína skafa happaþrennu til vinnings. Engin af þessum upplifunum jafnast þó á við þá, sem ég átti um sl. helgi.
Fyrir hefur komið að ég hef heyrt til fólks, sem lýst hefur þeirri skoðun sinni að golf sé tilgangslaust og jafnvel leiðinleg íþrótt - bæði að leika og jafnvel enn frekar á að horfa. Þeir sem horfðu á lokaholur Íslandsmótsins um sl. helgi á RÚV (eða mættu jafnvel á völlinn) ættu að hafa sannfærst um hið gagnstæða.
Þessi flippað klikkaða skemmtun sem boðið var upp á um helgina var einkum og sér í lagi einum manni að þakka - Ólafi Birni Loftssyni. Maðurinn stóð uppi sem Íslandsmeistari eftir svo ótrúlegar lokaholur að jafnvel handritshöfundi klisjukenndustu Hollywoodkvikmyndar sögunnar hefði varla dottið annað eins til hugar sem söguefni. En þetta var engin saga - þetta var raunverulegt. Ólafur lék fjórar seinustu holur vallarins (sem eru kallaðar „Final four“ og frægar sem erfiðustu lokaholur landsins) allar á fugli og tryggði sér þar með umspil við Stefán Má Stefánsson (eða vonda kallinn, eins og vistfólk Fossheima á Selfossi kallaði hann). Innáhögg Ólafs á 18. flötina heppnaðist reyndar ekki fullkomlega. Langt og geypilega erfitt pútt átti hann eftir fyrir fuglinum sem mundi tryggja honum umspil.
Svo púttað'ann boltanum beint móti golunni
og boltinn fór rúllandi' í áttina' að holunni
og fólkið af mögnuðum fögnuði hoppaði
er fannhvítur boltinn í holuna skoppaði.Ákaft þá fjölmenni' í kór heyrðist hvíslandi:
„Christ! Þessi drengur er bestur á Íslandi!“
Stefán klúðraði stutta púttinu sínu og umspil varð raunin. Nú voru velflestir áhorfendur komnir á band Ólafs, því geislandi sigurviljinn hreif alla viðstadda. Ólafur lék golf sem Íslendingar hafa hingað til aðeins fengið að sjá í sjónvarpsútsendingum frá fjarlægum slóðum. Enginn varð heldur svikinn af spilamennskunni í umspilinu. Eftir magnaðan viðsnúning sem innihélt m.a. fimm fugla í röð á erfiðustu holunum hampaði Ólafur Íslandsmeistaratitlinum við fögnuð viðstaddra - fögnuð sem Ólafur átti sannarlega skilið eftir að hafa upp á sitt einsdæmi boðið upp á e-ja skemmtilegustu íþróttaupplifun fyrr og síðar.