Tuesday, November 24, 2009

Ferskeytlur...

...kunna að valda hugarangri þeim, sem þær setur saman. Sú er raunin um þann, sem þessi orð eru lögð í munn á:


Ferskeytlu ég ber á blað
bara þegar nenni,
því mér finnst svo erfitt að
yrkja samkvæmt henni.

Oft hef leikið grátt mitt geð
og gráðugt tuggið neglur.
Fullt ég á í fangi með
flóknar bragarreglur.

Mér í vegi myndi fátt
mega fá að standa
ef ég hefði æðri mátt
einhvers hagorðs fjanda.

Raun er önnur - gerist gramt
geðið vegna þessa.
Eðli mínu er ekki tamt
orð í brag að hvessa.

Eftir hætti er pínlegt puð
pælingar að virkja.
Eflaust væri stanslaust stuð
stuðlalaust að yrkja;

semja alls kyns atómdrög,
orðum saman lötra,
yrkja fram í lengstu lög,
laus við stuðlafjötra.

En...

...þó svo braglaus geti góð
gerst, er annað fegra:
Að ég stuðli öll mín ljóð.
Enda skemmtilegra.

Tuesday, November 03, 2009

Játning

Þetta er birt í von um að fólk hætti að spyrja þessarar óþolandi spurningar! Og hvað er málið með þessu endalausa í gær?? Það eru mörg ár síðan þetta gerðist, kommon!


Um atburð nú hefi ég of lengi þagað
og of lengi hefir mig samviskan nagað,
en nú verður lyginni létt.
Sem óþekkur bjáni ég hefi mér hagað
og heilmikinn skaðann ég get ekki lagað.
Því færi ég heiminum frétt:

Það gerðist eitt sumarið, langt fyrir löngu, -
ég lúinn kom heim eftir erfiða göngu
um fannhvítan fjallanna sal.
Ég kunni' ekki að greina hið rétta frá röngu
er róa mig langaði taugarnar svöngu ...
...og köku úr krúsinni stal!

Borið hefur á kvörtunum yfir því að síðustu línuna vanti í ljóðið. Það tilkynnist því hér að hana er að finna hvítletraða á milli þrípunkts og upphrópunarmerkis.