Þá eru síðustu jólaprófin mín í MR afstaðin. Siðasta jólafrí mitt sem MR-ings er hafið. Síðasti 18. desemberinn minn verandi MR-ingur er upprunninn og síðasta stund mín í skammdegisþunglyndi á Landsbókasafninu sem MR-ingur er liðin. Ég veit ekki hvort ég á að hlæja eða gráta.
Hvað sem þessu líður þá hélt ég áfram með jólaprófaljóðabálkinn minn þessi jólapróf, og bættust tvö erindi við þau fjögur sem ort voru fyrir ári síðan. Til upprifjunar skulum við byrja á að rifja upp jólaprófaljóðin 2005:
Neminn skelfur, nálgast próf.
Nú er vandi á höndum
Sjúkur hiti, svitakóf.
Senn fer allt úr böndum.
Valda próf og vanlíðan,
verst eru íslensk fræði.
Lítið er ei lagt á mann,
logandi brjálæði.
Bækur sem mér býður við
berst ég við að skilja.
Hvorki á flug ég kemst, né skrið.
Kappann skortir vilja.
Sársauka í brjósti ber,
berst ég fyrir næði.
Langtum meir þó leiðist mér
Lífræn efnafræði.
Eftirfarandi erindi varð til í stærðfræðiprófinu fyrir nákvæmlega viku síðan. Vísan er þó að vissu leyti öfugmæld því mér hefur oft gengið verr á stærðfræðiprófi.
Að vera góður í einhverju' er fínt,
ég kann Adidas-merki að teikna.
En stærðfræðin stendur á sér og telst sýnt
að sjálfur ég kann ekki' að reikna.
Þessi kom meðan lært var fyrir sögupróf á bókhlöðunni. Við höndina var ákveðinn drykkur sem innihélt koffín, gurana-þykkni og gingsen.
Próflestur er strembið starf
sem Steindór þarf að drýgja.
Koffíndrykki þamba þarf,
þreytu til að flýja.
Monday, December 18, 2006
Subscribe to:
Posts (Atom)